145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

búvörusamningur með tilliti til umhverfis- og náttúruverndar.

[16:41]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Fáir eða engir eru jafn háðir ábyrgri nýtingu náttúrunnar og bændur. Við eigum að nýta frumkvöðlakraftinn sem býr meðal bænda þessa lands og hnýta þannig saman hagsmuni bæja og sveita og landsmanna allra í umhverfismálum. Aukin áhersla á lífræna ræktun í landbúnaði hér á landi þýðir minni notkun á aðkeyptum aðföngum eins og áburði og sýklalyfjum sem er afar umhverfisvæn stefna. Heilsa og matvæli eru einn af stóru þáttunum í daglegu lífi okkar allra og við sjáum t.d. hvernig íslenskt skyr slær í gegn erlendis. Það sér ekki fyrir endann á þeirri þróun að neytendur vilja lífrænar, hollar landbúnaðarvörur sem framleiddar eru á Íslandi. Ég sé alveg fyrir mér að markaðir kunni að skapast erlendis fyrir þessa vöru á næstu missirum og árum.

Neytendur vilja einnig rekjanleika og að framleiðslan fari fram á ómenguðu landi. Margt bendir til þess að kolefnisfótspor íslenskrar sauðfjárræktar sé í minna lagi sé miðað við sömu búgrein annars staðar. Áburðarnotkun á hektara er minni hér en víðast annars staðar og sýklalyfjanotkun einnig eins og áður segir. Hormónar eru bannaðir og varnarefni nánast óþekkt.

Það þarf heldur ekki að fjölyrða um hversu miklu umhverfisvænna það er að rækta matvörur í nágrenni við helsta markaðinn í samanburði við að flytja þær um langan veg. Kortlagning og rannsóknir á kolefnisfótspori sauðfjárræktar eru nú í fullum gangi og má vænta niðurstöðu þessarar vinnu í haust.

Það er gott að minnast þess að í rúman aldarfjórðung hafa bændur og Landgræðslan unnið saman að verkefninu Bændur græða landið og um 35.000 hektarar lands hafa verið græddir upp. Verkefnið þykir hafa heppnast með eindæmum vel. Ég tel því að fram undan séu gríðarleg tækifæri í landbúnaðarmálum á Íslandi þar sem umhverfismarkmið (Forseti hringir.) eru höfð að leiðarljósi og ég hvet bændur svo sannarlega til dáða í þeim efnum.