145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

almennar félagsíbúðir.

435. mál
[18:09]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að þakka kærlega fyrir umræðuna. Ég þakka velferðarnefnd kærlega fyrir samstarfið og alla vinnu hennar í þessu máli.

Það sem ég ætla að fá að bæta við er að þegar við horfum yfir sviðið þegar kemur að íslenska velferðarkerfinu, horfum yfir félagsvísana, horfum yfir alla mælikvarða sem við notum til að meta þann árangur sem við erum að ná í velferðarkerfinu, standa Íslendingar mjög vel á flestum sviðum. Við erum mjög víða í efstu sætum þegar kemur að velferð en eins og var kynnt nýlega sjáum við á mælikvörðum líkt og Social Progress Index að húsnæðismálin draga okkur niður. Aðgangur að hagkvæmu húsnæði hefur ekki verið í góðum málum á Íslandi.

Þegar þessi ríkisstjórn tók við lagði hún strax fyrsta sumarið fram þingsályktunartillögu í tíu liðum sem var ákveðin stefnumörkun um hvað við ætluðum að gera þegar kæmi að stöðu heimilanna á Íslandi. Stóra aðgerðin var að fara í skuldaleiðréttinguna. Hluti af henni var annars vegar höfuðstólslækkun og hins vegar séreignarsparnaðarleiðin sem hefur náð miklum árangri. Aðeins neðar á þessum tíu atriða lista kom fram að þingið fól mér að skipa verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Eins og ég sá það fyrir mér ætluðum við að koma á fyrirkomulagi þar sem við huguðum að öllum heimilum, ekki bara sumum, þar sem við mundum vonandi búa til kerfi þar sem við þyrftum aldrei aftur að fara í gegnum skuldaleiðréttingu.

Verkefnisstjórnin var skipuð. Hún vann vinnu sína í miklu og góðu samstarfi við samvinnuhóp, sem í voru yfir 100 fulltrúar, um framtíðarskipan húsnæðismála. Um þá vinnu áttum við mikið og gott samtal við aðila vinnumarkaðarins í tengslum við kjarasamninga núna í vor og varð niðurstaða þeirra viðræðna að samið var um þetta frumvarp og uppbyggingu 2.300 íbúða á næstu fjórum árum.

Við vinnslu málsins hefur skipt gífurlega miklu máli gott samstarf við verkalýðshreyfinguna. Ég ætla að fá að nefna sérstaklega Alþýðusambandið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þar hafa menn virkilega lagt sig fram. Unnið hefur verið um helgar og á kvöldin, menn hafa tekist á, það hefur verið rædd nánast hver einasta setning, að manni finnst, í hverri einustu grein. Síðan hafa góðir starfsmenn velferðarráðuneytisins unnið að því að útbúa frumvörpin sem skiluðu sér til nefndar. Þar tók velferðarnefndin við ásamt ágætum nefndarritara hennar. Við sjáum árangurinn af þeirri vinnu núna.

Ég man svo vel eftir því þegar ég sat sjálf í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili að mér fannst velferðarnefnd skemmtilegasta nefndin. Þar töluðu menn sig niður á niðurstöðu, þótt menn væru ósammála þegar kæmi að málinu töluðu þeir sig niður að niðurstöðu. Ég man alltaf eftir því þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom hér og starfsmenn hans og þeir nefndu við mig í samtali að eitt af því sem hefði komið þeim mest á óvart við að vinna með Íslandi í gegnum þá erfiðleika sem t.d. voru á síðasta kjörtímabili var hversu mikil samstaða var á þinginu og í samfélaginu um velferðarkerfið. Menn náðu saman hvað það varðaði. Það var aldrei tekist sérstaklega mikið á, þannig séð, um mikilvægi velferðar. Við slógumst bara aðeins um útfærslur og svo vildum við öll meiri pening í kerfið.

Ég er algerlega sannfærð um að húsnæði, húsnæðisöryggi, er grundvallaratriði þegar kemur að velferð í samfélagi. Fyrir ekki löngu síðan skrifaði ég aðeins um húsnæðismál á heimsvísu. Þá fjallaði ég um mjög áhugavert umræðuskjal sem ég fékk frá UN-Habitat, sem er húsnæðisstofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur að betra þéttbýli til framtíðar. Það sem ég stoppaði við þar, því að maður getur oft verið svo upptekinn af eigin vandamálum, var að fram kom að skortur á hagkvæmu húsnæði er ekki séríslenskt fyrirbæri heldur alþjóðlegt vandamál. Þetta er vandamál sem fer vaxandi með stækkun þéttbýlis í heiminum og þetta er vandamál sem bitnar mest á fátækustu og viðkvæmustu einstaklingum hvers samfélags. Þá erum við að tala um fólkið með lægstu tekjurnar. Við erum að tala um konur í viðkvæmri stöðu. Við erum að tala um innflytjendur, fatlað fólk, sjúka, unga, aldraða og hinsegin fólk, eins og þeir nefna. Í skjalinu falla mjög þung orð í garð ríkisstjórna á heimsvísu og sveitarstjórna þar sem þeir segja, með leyfi forseta:

„Almennt á meiri hluti ríkis- og sveitarstjórna í vandræðum með að uppfylla þarfir íbúa fyrir húsnæði. Efnaminnstu og viðkvæmustu heimilin finna mest fyrir þessu þar sem þau hafa ekki notið uppsveiflu á húsnæðismarkaði og aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum hafa skilað þeim litlu. Aðgerðir til að auka framboð húsnæðis fyrir konur, förufólk, flóttamenn, fatlað fólk og minnihlutahópa hafa litlu skilað til þessa. Inngrip stjórnvalda á húsnæðismarkaði hefur verið í lágmarki og víða eru þau hætt að bjóða upp á húsnæði, lóðir, þjónustu og jafnvel að setja skýrar reglur.“

Ég held að við getum sagt að með þeirri húsnæðisstefnu sem við höfum markað í miklu og góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna, við hitt stjórnsýslustigið, sem er Samband íslenskra sveitarfélaga, þá segjum við: Já, en ekki á Íslandi. Á Íslandi ætlum við að hafa þetta öðruvísi. Við ætlum að huga að öllum heimilum, ekki aðeins sumum heimilum. Við segjum líka að það sé engin ein leið sem dugar fyrir öll heimili. Við ætlum ekki að troða öllum í sama kassann heldur þurfum við að styðja við hvert og eitt heimili á þeirra forsendum.

Það er nákvæmlega það sem við höfum verið að gera. Við höfum verið að hjálpa fólki að spara fyrir húsnæði. Við sjáum það í nýlegum tölum. Við sjáum að skuldastaða heimilanna hefur batnað. Og núna tökum við mjög stór skref með afgreiðslu þeirra fjögurra húsnæðisfrumvarpa sem ég hef lagt fyrir á þinginu um leigumarkaðinn. 22% af heimilum landsins eru á leigumarkaðnum.

Eins og kom fram má segja að þetta sé helmingurinn af því að ná því markmiði að leiga sé innan 25%, sem er markmið sem sett var fram í yfirlýsingunni í vor. Hinn helmingurinn er húsnæðisbæturnar. Þar hugum við að stærri hóp, að almenna leigumarkaðnum, og það skiptir mjög miklu máli.

Ég ætla enn á ný að þakka nefndinni kærlega fyrir mjög gott samstarf. Ég ætla líka að fá að nota tækifærið í lokaorðum mínum og þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur sérstaklega fyrir alla vinnu hennar í málinu. Það hefur verið mikil ánægja að vinna að þessum málum með hv. þingmanni.