145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[20:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er óhætt að segja að þetta séu áhugaverðar umræður og í sjálfu sér er ágætt að menn dragi upp sínar efasemdir sem vissulega hafa komið fram í nefndinni. Ég er sammála því að þetta eigi að vera í samgöngunefnd og sagði það á sínum tíma þegar hv. varaformaður nefndarinnar vildi að nefndin flytti málið. Hann lagði það til en það varð ekki niðurstaðan. Þetta er risastórt mál og það varðar ekki bara hagsmuni Eyjamanna. Það gerir það líka en ekki síður fjárhagsáætlun og samgönguáætlun. Bara þetta tvennt segir okkur að hér er verið að reyna að koma máli í gegn sem ekki hefur verið minnst á í plöggum ríkisstjórnarinnar síðustu þrjú árin; engin 6. gr. heimild til staðar, a.m.k. ekki til framkvæmda. Það er svo einfalt enda er það kannski þess vegna sem málið er þar sem það er núna. Málið lítur auðvitað út fyrir að vera kosningamál, það hefur þann brag á sér í ljósi þess hvernig það er flutt og á hvaða tímapunkti það er flutt.

Rökin sem hér eru færð varða fyrst og fremst höfnina, Landeyjahöfn, og aðstæður þar. Í sjálfu sér var mjög lítið rætt um skipið sem slíkt, annmarka þess og kosti. Það var komið inn á það á lokametrunum, en fyrst og síðast var rætt um hvernig höfnin er og hefur verið og hvað skal gera í því. Skipstjórarnir, lóðsinn, hafnarstjóri og fleiri sem hafa komið til fundar við okkur hafa efasemdir sem hér hafa verið raktar ágætlega. Ég hef svo sem líka heyrt að menn telji að þetta skip verði ekki betri kostur en gamli Herjólfur, þ.e. sé sambærilegt skip. Ekki ætla ég að fullyrða um það, ég hef ekki á því faglega þekkingu, en það er að mörgu að hyggja.

Það sem ég ætlaði fyrst og síðast að ræða er fjármögnunin. Ég hef gríðarlegar áhyggjur af því að við erum hér með skítlélega samgönguáætlun sem vantar 3 milljarða upp á miðað við ríkisfjármálaáætlun. Ég hef áhyggjur af því að þetta verði til þess að skerða þá áætlun. Það þarf og hefði þurft að koma skýrt fram að þetta væri fjármagnað beint úr ríkissjóði án þess að það kæmi nokkurs staðar til skerðingar í samgönguáætlun. Mér finnst það mjög mikilvægt.

Ég er líka sammála þeim fyrirvara sem hér er settur varðandi að þetta geti verið einkarekið, þ.e. ekki eingöngu á vegum ríkisins. Ég tek undir með heimamönnum, ég tel skynsamlegt að hafa það á þann hátt. Mér finnst menn láta beygja sig, ég verð að segja það, af því að hér ritar fólk undir, segist vera með fyrirvara eins og hv. ræðumaður á undan mér, en hann er ekki skráður í þessu áliti. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Hann þorir það ekki.)(GÞÞ: Útskýrði það í ræðunni.) Ég biðst velvirðingar ef það hefur komið fram. Ég hélt að ég væri búin að lesa álitið í gegn en augljóslega hefur þetta þá farið fram hjá mér. Það er þó svolítið sérstakt að þeir sem koma úr kjördæminu hafa meiri áhyggjur en þingmenn höfuðborgarsvæðisins. Maður hefði getað ímyndað sér að þeir sem næst þessu standa heyrðu raddir heimamanna og hvað þeir vildu. Sveinn Rúnar Valgeirsson, skipstjóri á Lóðsinum, leggur til að kannaðar verði aðrar leiðir hjá íbúum eyjarinnar. Það má alveg spyrja sig hvers vegna það er ekki gert.

Ég geri mér grein fyrir því að hér eru menn að tala um tímafaktor, þ.e. að útboðsferli tekur gríðarlega langan tíma, en það kannski dugar ekki eitt og sér. Ég er ekki sannfærð um að það tímaplan sem hér hefur verið sett fram og er í gögnum nefndarinnar haldi, ekki frekar en margt annað, og ég er ekki jafn sannfærð og kannski hv. varaformaður fjárlaganefndar þegar hann flutti sína ræðu um að þetta mundi allt ganga eftir. (GÞÞ: Þú hlustaðir ekki á ræðuna.) Jú, jú, ég hlustaði á ræðu þína, hv. varaformaður.

Eins og ég segi ætla ég ekki að ræða þetta mál neitt sérstaklega mikið. Ég er ekki hlynnt því að þetta verði gert með þessum hætti í ljósi þeirra umsagna sem við höfum fengið. Ég hef svo sem ekki gert upp við mig með hvaða hætti ég greiði atkvæði um þetta mál en auðvitað þarf eitthvað að breytast. Ég tek undir með ferðaþjónustunni, hún vill einhverjar lagfæringar á þjónustu við sig. Hér er gerð tilraun til að segja að það verði bætt þjónusta, tvær ferðir á viku yfir sumartímann, og það muni skila sér til Eyja. Ég dreg það ekkert í efa, en þó að sá fókus skipti máli hlýtur þetta fyrst og fremst alltaf að snúast um samgöngur íbúanna á ársbasis. Hér hefur ekki beinlínis verið hrakið hverjar frátafirnar gætu orðið. Menn eru auðvitað að geta í eyðurnar og það verður kannski aldrei öðruvísi.

Ég hafði ekki tekið eftir því fyrr en ég sá nefndarálitið að halda ætti gamla skipinu. Ég tek undir þá spurningu sem borin var upp áðan: Hvað kostar það? Við höfum t.d. ekki fengið inn á borð til okkar í fjárlaganefnd hvað það kostar. Á að binda hann við bryggju og láta hann bíða eftir því hvernig gengur? Hver er tilgangurinn með því að eiga skipið og hversu lengi og allt það? Hvað er ásættanlegur tími í því að sjá til hvernig nýja skipið virkar? Við hljótum að þurfa a.m.k. ár og jafnvel tvö af því að við vitum að vetur eru misjafnir, sjólagið mismunandi o.s.frv. Þetta er nokkuð sem mér hefur ekki fundist vera svarað.

Ég heyri svolítið í þeim aðilum sem komu til okkar á fund og voru allflestir frekar neikvæðir, það verður að segjast eins og er, og voru með mikil og sterk varnaðarorð. Kannski verður það alltaf svo, ég veit ekki hvort þessi leið er betri en einhver önnur. Mér finnst ég ekki heldur hafa beinlínis fengið svör við því. Þess vegna hefði mátt reyna að svara því og koma til móts við það í gögnunum sem við erum með. Þótt lengi hafi verið unnið að hönnun þessarar ferju eins og komið hefur fram hefur samt öðrum hugmyndum verið velt upp, hugmyndum sem við hefðum kannski þurft að fá lengri tíma til að skoða. Ég tek undir að öryggissjónarmið er mikilvægt eins og hv. framsögumaður kom inn á, þ.e. að bílarnir séu fyrir ofan en ekki neðan o.s.frv. Það eru alveg plúsar í málinu, það er ekki eins og allt sé ómögulegt.

Fyrst og síðast hef ég áhyggjur af því að við getum ekki fallist á þetta vegna þeirra aðvörunarorða sem við höfum fengið. Svo hefur mér ekki heldur fundist það koma skýrt fram að þetta komi ekki til með að skerða samgönguáætlun í ljósi þess að í ríkisfjármálaáætlun kemur fram að það kostar í kringum 6 milljarða með dælubúnaðinum. Ég sé að hv. varaformaður ætlar að koma í andsvar við mig og þá væri áhugavert að vita hvort hann hefur hugmyndir um það.