145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[20:54]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við fáum svo lítið fyrir gamla Herjólf, segir hv. þingmaður. Það liggur svo sem heldur ekki fyrir. Við erum ekki búin að auglýsa hann til sölu þannig að við vitum ekkert um það. Það er ekki bara að eiga hann, það þarf náttúrlega að reka hann. Á hann að vera bundinn við bryggju eða á hann að sinna einhverjum verkefnum? Allt skiptir þetta máli.

Það er ánægjulegt að heyra ef hv. þingmaður telur að þetta hafi ekki áhrif á samgönguáætlun. Ég er glöð að heyra það og ég kem til með að rukka hann um það í haust þegar við förum að skoða málaflokkinn samgönguáætlun versus ríkisfjármálaáætlun. Ég vænti þess að það komi þá fram í áliti meiri hluta nefndarinnar að svo verði ekki, því þetta mál hlýtur að koma fyrir þar núna eins og fyrir tveimur árum. Þá er mjög mikilvægt að draga áhrifin á samgönguáætlun fram vegna þess að ég er ekki sú eina sem hef efasemdir um það. Hún verður ekki afgreidd nú, sem þýðir að menn ætli annaðhvort að reyna að bæta í hana eða skera niður í verkefnum miðað við það sem vantar.

Við sjáum til hvernig þessu máli vindur fram. Það kemur auðvitað fram í nefndarálitinu að það er margvísleg óvissa. Talað er um dýpkunina í Landeyjahöfn og að svo margir óvissuþættir tengist siglingu nýrrar ferju til Landeyjahafnar að nefndin telji að ekki eigi að selja Herjólf, það þurfi að að sjá hvernig þetta komi allt saman út. Það eru þessir óvissuþættir sem hafa verið raktir hér sem valda því að við höfum auðvitað efasemdir. Við eigum að hafa þær. Þetta er risastórt mál. Annað eins hefur nú þingmaðurinn blásið yfir fjármunum af þeirri stærðargráðu sem hér er til umræðu sem er í kringum 6 milljarðar. (Gripið fram í: Það er alveg rétt.)