145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[21:33]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar skilar séráliti og lýtur það sérstaklega að þeim ákvæðum sem snúast um samsköttun milli skattþrepa. Við umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið komu upp afar ólík sjónarmið hvað varðar samsköttun hjóna milli ólíkra skattþrepa en í frumvarpinu er lagt til að heimild til samsköttunar verði afnumin. Forsaga málsins er sú að þegar þriggja þrepa tekjuskattskerfið var tekið upp árið 2010 var um leið tekin upp sérstök ívilnandi regla sem nýttist hjónum í þeim tilvikum þegar annað hjóna, eða samskattaðs fólks, er í efsta tekjuskattsþrepi en hitt nær á sama tíma ekki að fullnýta miðþrepið. Gert hafði verið ráð fyrir því að þessi samsköttunarregla mundi falla niður með fækkun skattþrepa 1. janúar 2017. Sú breyting var þó gerð við vinnslu málsins á þinginu, þ.e. fækkun þrepa, að reglunni var viðhaldið.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lagði nú til að nýju í frumvarpinu að reglan yrði afnumin og færði fyrir því margvísleg rök, en hv. þingmenn í minni hlutanum vitna þó sérstaklega til þess að samsköttunarreglan eykur ráðstöfunartekjur tekjuhærri heimila, að langmestu leyti heimila í hæstu tekjutíund. Þau heimili sem munu hljóta ábatann eru jafnframt með mjög stóran hlut fjármagnstekna heimila samkvæmt minnisblaði fjármálaráðuneytis. Reglan gengur því gegn því almenna hlutverki hins opinbera að stuðla fremur að því að jafna tekjudreifinguna en auka hana. Tekjuhærri heimili geta að auki nýtt sér samsköttunarregluna til fulls ef annar aðilinn hefur tök á því að taka allar tekjur sínar í gegnum samlagsfélag eða einkahlutafélag. Samsköttunarreglan, og vitna ég enn í minnisblað fjármálaráðuneytis, setur enn fremur í uppnám hið yfirlýsta markmið kerfisbreytingarinnar í tekjuskatti 2016–2017 sem var fyrst og fremst að bæta hag millitekjuhópa.

Í minnisblaði fjármálaráðuneytis var einnig bent á að gera mætti ráð fyrir því að samsköttunarreglan stuðlaði beinlínis að auknu kynjamisrétti þar sem konur hefðu að jafnaði lægri laun en karlar, sem ætti að vera flestum hv. þingmönnum kunn staðreynd þar sem við höfum margoft rætt óútskýrðan launamun kynjanna, og bæru að auki meiri ábyrgð á ólaunuðum heimilis- og umönnunarstörfum. Þar sem karlar eru tekjuhærri í u.þ.b. 75% sambanda samkvæmt minnisblaði fjármálaráðuneytisins er þetta aðgerð sem gagnast körlum í meira mæli en konum. Ráðstöfunartekjur tekjuhærri einstaklingsins, í flestum tilvikum karlsins, aukast en tekjur tekjulægri einstaklingsins, þ.e. í flestum tilvikum konunnar, haldast óbreyttar, sem þýðir að karlar fá skattaívilnun sem byggist á vinnu og launum kvenna, ráðstöfunartekjur þeirra aukast og launabil á milli kynja eykst sem er þvert á markmið um efnahagslegt jafnræði á milli karla og kvenna.

Svo ég haldi áfram að vitna í minnisblað fjármálaráðuneytisins þá stendur þar að út frá jafnréttissjónarmiðum skipti máli að skattkerfi séu ekki með innbyggðan hvata sem geti dregið úr atvinnuþátttöku eða fjárhagslegu sjálfstæði. Samsköttun sem þessi felur í sér hvata fyrir konur að taka á sig í meiri mæli en karlar ólaunuð heimilis- og umönnunarstörf sem birtist til að mynda í háu hlutfalli kvenna í hlutastarfi. Samsköttun sem þessi dregur því úr efnahagslegu jafnrétti á milli kynja og fjárhagslegu sjálfstæði kvenna ásamt því að stuðla að hefðbundinni verkaskiptingu inni á heimilum þar sem þær skyldur lenda í meira mæli á konum en körlum. Færanleiki á milli skattþrepa í þessu tilfelli er því til þess fallinn að auka kynjamisrétti.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar féllst ekki á þessi rök eins og sjá má á nefndaráliti hans og breytingartillögu sem hv. þm. Brynjar Níelsson fór yfir áðan. Þá kemur að því sem líka skiptir máli í þessu samhengi að verði breytingartillaga meiri hluta samþykkt vantar tekjur upp á 3 milljarða kr. í tekjuáætlun ríkissjóðs. Teljum við hv. þingmenn minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar algjörlega óásættanlegt að þessi breyting sem er tekjuhæstu hópum samfélagsins til hagsbóta, og ég hef raunar ekki séð því sérstaklega andmælt að þetta gagnast auðvitað tekjuhæstu heimilunum, leiði til frekari niðurskurðar á grunnþjónustu fyrir allan almenning. Ég hefði talið eðlilegt að leggja til tekjuöflun á móti, til að mynda hækkun á efra skattþrepi.

Hæstv. forsætisráðherra Íslands, Sigurður Ingi Jóhannsson, ræddi þetta mál raunar í gær þar sem hann benti á að leggjast yrði betur yfir málið og finna tekjumöguleika á móti, því að ekki væri hægt að skilja þrjá og hálfan milljarð eftir ófjármagnaðan. Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra í umræðum í gær. Ég vænti þess að það komi í hlut hæstv. fjármálaráðherra sem lagði þetta til. Það má ekki gleyma því að hér er auðvitað verið að lækka tryggingagjald sem nefndin styður sem heild, um 3 milljarða, þannig að hér er verið að skapa ríflega 3 milljarða mun. Ég vænti þess að það verði úrlausnarefni að afla þeirra tekna.

Að lokum stendur í nefndaráliti minni hlutans að minni hlutinn leggur til að breytingartillaga meiri hlutans verði felld og bendir á að fjölmennasta verkalýðshreyfing landsins, Alþýðusamband Íslands, styður upprunalega tillögu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra eins og minni hluti nefndarinnar.

Undir álitið rita hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir, framsögumaður, og Valgerður Bjarnadóttir.