145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[11:28]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla að styðja þetta mál og segi eins og aðrir: Þótt fyrr hefði verið. Það hefur nefnilega tekið alveg fáránlega langan tíma að koma með þessa tillögu fram og taka þessa ákvörðun. Það er ótrúlegt að þeir flokkar sem gagnrýndu seinagang á síðasta kjörtímabili í þessum efnum skuli nú þremur árum seinna, eftir að hafa verið við völd í þrjú ár, vera með málið á nákvæmlega sama stað og það var þegar þeir tóku við.

Ókei, gott, styðjum þetta eins og þetta er núna, en það er fáránlegt að svona stórt mál, af þessari stærðargráðu, skuli ekki koma til umfjöllunar í samgöngunefnd þingsins. Hvers lags vinnubrögð eru það eiginlega? Það er ekki einu sinni umsögn frá samgöngunefndinni. Fulltrúar meirihlutaflokkanna í nefndinni eru forsmáðir fullkomlega í þessu þannig að það er eðlilegt að nefndin muni, þegar hún kemur saman í sumarlok, fara rækilega yfir þetta mál og marka þessa stefnu til framtíðar eins og hún á að gera.