145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[11:39]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég styð þetta frumvarp eins og það kom frá hæstv. fjármálaráðherra. Ég fagna því að tryggingagjald sé lækkað. Ég tel að það hefði átt að lækka fyrr. Ég tel að það megi lækka meira. Það er enn þá hærra núna en það var þegar það byrjaði að hækka í efnahagshruninu. Þá fóru miklir peningar inn í Atvinnuleysistryggingasjóð. Nú rennur mikill hluti af því fé inn í ríkiskassann.

Ég er á móti breytingartillögunni sem meiri hlutinn gerir við frumvarp ráðherrans um að hætta samsköttun hjóna, það var tillaga hans. Ég ætla að styðja við bakið á honum í því og greiða þess vegna atkvæði á móti breytingartillögu meiri hlutans.