145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

mjólkurfræði.

40. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaður biðst afsökunar á þessu bráðræði en þakkar hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni fyrirspurnina, en verður að viðurkenna að erfitt gæti reynst að útskýra nákvæmlega hvað orðalagið þýðir, sérstaklega í ljósi þess að hv. þingmaður hefur ekki fundið nákvæma skýringu á því á löngum ferli. En það sem átt er við í þessu tiltekna nefndaráliti er að ef íslenskt þjóðfélag þarf sannarlega á þessari þekkingu að halda, sem rökstutt var mjög vel fyrir nefndinni, samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs byggðist m.a. á því að þessi þekking væri til staðar, þá gæti verið hagkvæmara að semja við skóla erlendis um að íslenskir nemendur gætu sótt námið þangað heldur en að fara að bjóða það fyrir tvo til þrjá nemendur árlega hér á landi.

Að því sögðu get ég fallist á að þarna sé ofaukið orðinu „þjóðhagslega“ og ætti í rauninni bara að standa: hagstæðara eða hagfelldara.