145. löggjafarþing — 129. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[15:23]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alltaf ánægjulegt að sjá framan í andlit þingmanna, en í þessu tilfelli hefði maður búist við að fá aðeins lengri tíma án þess að það gerðist. Ég verð að segja að mér finnst núverandi stjórnarmeirihluti hafa komið sér upp þeim leiða ávana að leysa kjaramál sem komast í hnút með þessum hætti. Ég man ekki til þess að það hafi verið gert svo ítrekað hér á árum áður að menn væru alltaf að kalla til þingið þegar kjaraviðræður kæmust í hnút.

Mig langar að spyrja af því að ég hef ekki haft mikinn tíma til þess að kynna mér stöðuna í viðræðum við flugumferðarstjóra. Mér skilst að þau mál sem hér séu í húfi verði ekki leyst nema með yfirvinnu en að ekki sé yfirvinnuskylda hjá flugumferðarstjórum sem starfa á almennum markaði. Hvernig hyggst ráðherra og ríkisstjórnin fá flugumferðarstjóra til þess að sinna yfirvinnu náist ekki að semja fyrir tilskilinn frest? Er ekki verið að setja málin í miklu alvarlegri og stærri hnút en þau eru nú þegar? Og er ekki sjálfsagt að menn geri þá kröfu til þeirra sem sóst hafa eftir ábyrgð þeirri sem fylgir því að vera í ríkisstjórn að þeir nái niðurstöðu án þess að setja lög á hverja stéttina á fætur annarri og vera alltaf að reyna að leysa málin með því að kalla þing saman? Ég held að það sé ekki til of mikils mælst að menn reyni einfaldlega að vanda sig við það. Ég óttast, af því sem ég hef á hálftíma kynnt mér um þetta mál, að hér sé verið að laga þakleka, eins og einhver orðaði það, með því að kasta handsprengju í þakið. Þaklekinn hverfur auðvitað við það. En þá hafa menn heldur ekkert þak yfir höfuðið. Þannig að ég er mjög hugsi yfir þessum vinnubrögðum. Auðvitað skoðar maður málið eins og það kemur fyrir, en ég velti fyrir mér hvernig ríkisstjórnin ætlar að tryggja yfirvinnu í framhaldinu.