145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:09]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt að það er ekki eitt kerfi ríkjandi alls staðar á Norðurlöndum og þess vegna er mjög villandi að í frumvarpinu skuli vera vísað til norrænnar fyrirmyndar til að rökstyðja ágæti frumvarpsins þegar sú norræna fyrirmynd er í fyrsta lagi ekki nein ein mynd, en eins og ég rakti í ræðu minni fær sá samanburður hæstv. ráðherra heldur ekki staðist. Það er bara þannig.

Ég er algjörlega ósammála hæstv. ráðherra um að framtíðarsýnin eigi að vera sú að doktorsnemar verði ekki á námslánum. Það er grundvallaratriði fyrir frelsi fólks til náms að hver sem er geti á grundvelli námslegrar getu og hæfni sótt sína æðstu menntun án þess að vera ofurseldur hagsmunadrifnum rannsóknasjóðum, rannsóknasjóðum atvinnuveganna eða einhverju styrkjakerfi sem tekur mið af öðru en hinum faglegu og þekkingarlegu forsendum námsmannsins.

Ráðherrann þarf ekki að kenna mér hvernig doktorskerfið virkar í dag. Ég hef sjálf stundað doktorsnám í þessu blandaða kerfi, það reyndist ágætlega, en drottinn minn dýri, ef ekki hefðu verið möguleikar á námslánum í því námi hefði því að sjálfsögðu aldrei lokið. Ég vil meina að þekkingarsamfélagið sé bættara með hverri doktorsritgerð sem varin er og fær staðist fyrir háskólasamfélaginu í okkar litla samfélagi.

Síðan er ég svolítið hugsi yfir þessu pexi með endurgreiðslubyrðina. Ef það er að marka þá útreikninga sem hafa verið bornir á borð í opinberri umræðu um þetta mál er endurgreiðslubyrðin eftir að lán hefur náð 5 millj. kr. heildarupphæð töluvert hærri en hún er að óbreyttu. Núna er endurgreiðslubyrðin um 11.000 kr. á mánuði óháð því hvað námslánið í heild sinni er hátt en með þessum breytingum verður endurgreiðslubyrðin mun hærri strax við 5 millj. kr. heildarlán og (Forseti hringir.) getur farið upp í allt að 53.700 kr. á mánuði. Þetta eru kannski rangir útreikningar sem verið er að bjóða upp á hér en þá verð ég bara að biðjast velvirðingar á því. Ég er að vísa í tölur og gögn sem hafa komið fram í þessari umræðu frá ráðuneytinu að ég tel.