145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það má vera, ég held samt að við þurfum að horfa fyrst og fremst til okkar fólks sem tekur lán, að afborganirnar verði áfram tekjutengdar í ljósi þess að ég tel að launaviðmiðið sem hér er uppi sé ekki raunhæft, því miður. Ég held að það séu hreint ekki allar stéttir sem útskrifast eftir fimm ára nám — og þá erum við bara að tala um BA-námið, ekki meistaranámið eða MBA-námið eða hvað það nú heitir sem þar kemur ofan á, þar sem fólk er jafnvel búið að skuldsetja sig enn lengur — sem fá laun núna miðað við markaðinn eins og hann er í dag þrátt fyrir allt. Þrátt fyrir alla þessa uppsveiflu sem hér er sífellt talað um er enn töluvert atvinnuleysi meðal háskólafólks sem fer þá til útlanda þannig að ég held að við þurfum að horfa vel í þetta og einnig vextina.