145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:39]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég vona að nefndin geri einhverja áhættugreiningu út frá frumvarpinu, hvaða áhrif það getur haft á ákveðnar greinar eins og t.d. þær stéttir þar sem krafist er langs háskólanáms en laun kannski ekki í samræmi við það. Þetta getur orðið þeim hópum veruleg byrði; kennurum, leikskólakennurum og fleiri aðilum. Þannig að ég bið um það.

Síðan langaði mig að nefna annað. Það er ekki alveg allt gull sem glóir. Hér er talað um styrkina. Um leið og einhver er farinn að taka eitthvað meira en styrkina, þ.e. lán, er hætt við því, vegna þeirra breytinga sem er verið að gera að það byrja að safnast vextir á lánið um leið og það er greitt út, að styrkur þeirra sem þurfa meira en strípaðan styrkinn fari að étast upp, þ.e. ríkið sparar sér með því að láta vextina byrja að falla á lánið um leið (Forseti hringir.) og það er greitt út. Þetta er atriði (Forseti hringir.) sem mér finnst nefndin þurfa að skoða, ójafnræði meðal styrkþega eftir búsetu og (Forseti hringir.) því í hvaða stöðu þeir eru hvað varðar (Forseti hringir.) búsetu heima (Forseti hringir.) hjá foreldrum eða ekki.