145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[20:36]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið þó að það hafi snúist um svolítið annað í byrjun. Mig langar til að fá að spyrja aftur hvort hv. þingmaður telji það möguleika að ljúka við svona stóra umbreytingu á íslensku námslánakerfi eins og fyrirhugað er hér. Þarna erum við að tala um að breyta lánstíma lánanna, hér er lagt upp með jafngreiðslur af lánunum, það er verið að hækka vaxtaprósentuna um tvö prósentustig í raun og veru þannig að þá sjáum við fram á það að hérna eigi að verða mun meiri grundvallarbreyting á því hvernig lánakerfið okkar virkar. Það er að fjarlægjast félagslega jöfnunarkerfið sem er ekki bara það að geta framfleytt sér meðan á námi stendur heldur líka að hafa tækifæri til að borga til jafns við greiðslugetu eftir að nám er búið.

Ég spyr: Er þetta ekki eitthvað sem þarf að þroskast frekar í umræðunni? Er þetta ekki eitthvað sem við þurfum að taka okkur jafnvel tvö þing í að ræða? Mér finnst 13–14 þingdagar ekki vera vænlegur tímarammi til að klára svona heildarendurskoðun, sér í lagi þar sem þetta virðist ekki vera í takt við það sem var lagt upp með af síðasta ráðherra mennta- og menningarmála. Það virðist ekki vera heill tónn í því hvernig við viljum hafa námslánakerfið á Íslandi, hvort við viljum hafa styrki í formi beinna styrkja eða styrki í formi niðurgreiðslu höfuðstóls þegar námi er lokið.