145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[18:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir andsvarið. Við þurfum einhvern veginn að ná saman með þetta með forvarnirnar vegna þess að það er borðleggjandi hversu miklum sparnaði er hægt að ná. Það stendur meira að segja í lyfjastefnunni, þannig að það eru allir meðvitaðir um þetta. Ég hef áhyggjur af því að við teljum alltaf að fólk geti einhvern veginn sjálft breytt um mataræði, það viti hvað er hollt og gott mataræði, það geti komið sér í ræktina. En það er auðvitað ekki þannig. Hv. þingmaður var á máli sem ég flutti um skýrar merkingar á matvælum svo að neytendum sé ljóst þegar þeir skoða matvælaumbúðir hvort þær innihaldi mikinn sykur, það þurfi ekki að vera sérfræðingur í þeim efnum til þess. Við erum sammála þarna.

Varðandi tekjuöflunina er það sem við horfum til að við teljum að hægt sé að fá meiri arð af sjávarútveginum t.d. Í því sambandi var svekkjandi að við skyldum ekki þegar makríllinn kom bjóða hann út og athuga hvort við gætum ekki látið markaðslögmálið ráða þar. Það var atriði sem við í Bjartri framtíð lögðum áherslu á. Ég held ekki að það sé endalaust hægt að taka arð af sjávarútvegi. Við verðum að vera meðvituð um að við ríkisstyrkjum ekki sjávarútveg eins og er gert víða annars staðar en hins vegar er þarna aðgangur að gríðarlega mikilvægri auðlind. Þegar vel gengur er sjálfsagt að þjóðin fái arð án þess þó að það setji fyrirtækin í hættu. Við teljum að það sé svigrúm þarna.

Eins varðandi raforkuverð. Ég er svo sem sammála þeirri stefnu sem Landsvirkjun hefur fylgt, eða ég tel að Landsvirkjun hafi fylgt, það er kannski nóg komið núna af sölu á mjög lágri raforku fyrir stórar verksmiðjur, þess vegna eru menn að skoða sæstrenginn, (Forseti hringir.) hvort sem hann er raunhæfur eða ekki. En það er gríðarlega mikilvægt að við fáum eins mikinn arð og við getum fyrir þá mikilvægu auðlind sem er hrein raforka.