145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[18:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og kom fram í ræðu hennar snýst þetta um stóru tölurnar og stóru áætlanirnar. Þetta eru ekki fjárlög. Þegar menn fara í útgjöld sem svara nokkur hundruð milljónum þá finna menn þau ekki í þessari áætlun. Ætli það séu ekki 700 milljarðar á hverju ári fyrir sig, rúmlega það, það er sá rammi sem við erum að vinna með. Auðvitað geta menn rætt það sem þeir vilja undir þessum lið eins og almennt er. En ef menn ræða um greiðsluþátttökuna, menn eru hér að fara yfir söguna, þá er sagan þessi: Ég setti þessa vinnu af stað á sínum tíma sem ráðherra og fól hv. þingmönnum Pétri Blöndal og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að vinna það mál. Því miður setti vinstri stjórnin þá vinnu ofan í skúffu og það gerðist ekkert fyrr en á þessu kjörtímabili. Greiðsluþátttaka okkar hefur verið á svipuðum stað og á Norðurlöndunum. Þó var hún lægst alla vega á síðustu árum í tíð okkar sjálfstæðismanna, þ.e. ekki þessari síðustu ríkisstjórn heldur ríkisstjórninni sem við vorum í áður.

Virðulegi forseti. Mér finnst nokkuð bratt þegar hv. þingmenn og fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem skáru hlutfallslega mest niður í heilbrigðismálum — og tölurnar liggja alveg fyrir, líka varðandi uppsagnir starfsmanna o.s.frv. — koma og tala með þessum hætti og tala niður þær áherslur sem núverandi ríkisstjórnarmeirihluti hefur haft í heilbrigðismálum. Við getum séð þær á öllum tölum og við sjáum þær líka í þessum áætlunum. Ef menn vilja ræða sömuleiðis niður í smáatriði um húsnæðismálin, sem er sjálfsagt undir þessum lið, þá hvet ég hv. þingmann og aðra þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, Pírata og Bjartrar framtíðar að reyna nú að eiga orð (Forseti hringir.) við meiri hlutann í Reykjavík þegar kemur að lóðaframboði því að sú staða sem þar er uppi er að hækka (Forseti hringir.) verulega verð á (Forseti hringir.) íbúðum, sérstaklega hjá ungu fólki.