145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir það. Ég held að áhugavert væri fyrir efnahags- og viðskiptanefnd að skoða það sem hæstv. ráðherra segir hér um lífeyrisréttindin því að það er búið að hamra það mjög inn að séreignarsparnaðurinn sé gríðarlega mikilvæg viðbót fyrir þá sem geta lagt það af mörkum. Það kemur líka fram í greinargerð með frumvarpinu að ekki greiða allir séreignarsparnað. Margir hafa væntanlega metið það svo að þessi valkostur sé bara of dýr, ekki síst meðan þetta unga fólk er í leiguhúsnæði, eins og var bent á, þar sem allt of hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum þeirra sem eru í leiguhúsnæði, allt upp undir helmingur, rennur til þess að greiða leigu. Þegar hæstv. ráðherra fer hér yfir meðallaun held ég að mikilvægt sé að við áttum okkur á því að ungt fólk er væntanlega í neðri hluta tekjuskalans, það er að byrja á vinnumarkaði, maður gengur ekki beint inn í há laun á vinnumarkaði. Þar af leiðandi er dreifingin — hún sýnir að þeir aðilar sem hafa hærri laun, og þetta er borðleggjandi reikningsdæmi, geta lagt meira (Forseti hringir.) af hendi í séreignarsparnað. Fæst ungt fólk byrjar á því strax vegna þess að (Forseti hringir.) tekjurnar eru lægri. Ég held að mikilvægt sé að við höfum þá mynd alveg á borðinu fyrir framan okkur þegar við ræðum grundvallarbreytingu í því hvernig hið opinbera ætlar að styðja við húsnæði ungs fólks.