145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er gaman að hlusta á samnefndarmenn sína halda þá tölu að einhverja sérstaka þolinmæði hafi þurft í samstarfi við mig. Ég held að hv. framsögumaður nefndarinnar taki ekki undir hans orð í þeim efnum. Við erum bæði mjög þolinmóð að eðlisfari og getum alveg rætt málin þó að við séum ekki í sama flokki. Það var nú ekki það sem fylgdi því samtali að ég ætlaði að ganga í Sjálfstæðisflokkinn. En ég tel rétt, og það er kannski það sem framsóknarmenn kunna ekki, að hafa samráð. Það er kannski það sem Sjálfstæðisflokkurinn er að gera núna, að draga Framsóknarflokkinn upp á eyrunum í þessari vinnu og hafa samstarf sem hefði átt að vera áður en samningurinn var undirritaður. En gott og vel.

Ég hef ekki gagnrýnt þær upphæðir sem þarna eru á ferðinni. Ég tel miklu brýnna að þær nýtist greininni sem slíkri, fari ekki í milliliði og endi ekki í ofurhagnaði hjá Högum. Ég vil að þessi stuðningur endi í vasa neytenda og endi hjá bændunum sjálfum og þessari búgrein svo hún geti vaxið og dafnað. Það er skoðun mín á málinu. Ég hef ekki verið að gagnrýna þær upphæðir sem slíkar, heldur skiptir máli hvar þær lenda, hvernig þær nýtast og að það komi okkur öllum sem samfélagi til góða. Það er mín sýn á þær upphæðir. Ég tel ekkert athugavert við að styðja íslenskan landbúnað ef það skilar sér aftur til baka til okkar allra.