145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórn sem sjálf hefur sagt sér upp störfum og boðað til kosninga hefur ekki lýðræðislegt umboð til að skuldbinda okkur hin um 200.000 milljónir til tíu ára. Hvað svo sem stendur í þessu frumvarpi segir stjórnarskrá Íslands að fjárveitingavaldið sé í höndum Alþingis. Fullnusta þess sem hér er hlýtur alltaf að vera undir því komin að pólitískur meiri hluti sé við afgreiðslu fjárlaga á ári hverju fyrir því sem þar stendur. Enginn stuðningur við neina atvinnugrein í landinu verður rekinn gegn meirihlutavilja á Alþingi. Það er mikilvægt því að þessi samningur er svo meingallaður að það er nauðsynlegt að endurbæta hann. Það á að horfa á hið jákvæða, atvinnuveganefnd hefur gert nokkrar endurbætur, og þeir sem sjálfir gerðu samninginn hafa samþykkt að setja á fót sérstaka nefnd til að endurbæta samninginn sem þeir sjálfir voru að enda við að undirrita. Ég held að það segi allt sem segja þarf um hvers konar (Forseti hringir.) hrákasmíð hér er á borðinu og eðlilegt að standa gegn því að hún verði að lögum.