145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er gagnlegt. Forsætisráðherra Framsóknarflokksins gengur hér í ræðustólinn og segir að þetta sé samningur til tíu ára og bændur geti treyst á þessa fjármuni til þess tíma og séu ekki undirseldir pólitískum geðþótta frá einu ári til annars. Í ræðustólinn kemur á eftir honum fulltrúi Framsóknarflokksins í atvinnuveganefndinni og segir þvert á móti að forsenda fyrir því að samningurinn gangi eftir næstu tíu árin sé að Alþingi samþykki það á hverju ári. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu. Á fjárlögum.) Þess vegna er þessi tillaga flutt um að skýrt sé að hér sé aðeins verið að framlengja núverandi ástand um skamman tíma meðan unnið sé að samráði og endurskoðun og náð miklu framsæknari og betri samningi fyrir neytendur í landinu en ekki síður fyrir bændur og einkum hinar dreifðu byggðir sem sannarlega hafa orðið út undan í þessum samningum.