145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

netbrotadeild lögreglunnar.

828. mál
[17:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki öðru að venjast en að svörin frá hæstv. innanríkisráðherra séu manni að mestu leyti að skapi, hvort sem kemur að þessum málaflokki eða flestum öðrum. Ég fagna svari hæstv. innanríkisráðherra og þakka kærlega fyrir að þetta sé gert skýrara vegna þess að áhyggjurnar eru réttmætar. Áhyggjurnar eru vegna þess að síðustu tvo áratugi eða svo hefur verið tilhneiging til að fara út í aðgerðir að vanhugsuðu máli. Ég heyri í ræðu hæstv. innanríkisráðherra að það stendur ekki til hjá innanríkisráðuneytinu. Það er mjög mikilvægt að þetta sé allt saman á hreinu.

Hvað varðar það að efla þekkingu innan lögreglunnar tek ég undir með hæstv. innanríkisráðherra. Það er mikilvægt að gera það, en í samræmi við umræðu hér nýlega um að setja lögreglunám á háskólastigi er sömuleiðis gríðarlega mikilvægt að lögreglumenn séu mjög meðvitaðir um áhrif rannsókna á réttindi borgaranna, óháð því hvort þeir starfi við tölvubrot eða ekki. Maður heyrir oft um að flett sé upp í málaskrám hjá fólki af tilefni sem maður telur ekki lögmætt. Það er hætt við því að menn gangi eins langt og þeir telji sig hafa gagn af, ekki einungis jafn langt og þeir hafa þörf fyrir. Ég hygg að þegar kemur að tölvubrotum sé þessi tilhneiging hjá lögreglumönnum óhjákvæmilega jafn sterk eða jafnvel sterkari. Þess vegna er mikilvægt að halda mjög vel utan um það allt saman.

Ég verð bara að segja eins og er að ég treysti hæstv. innanríkisráðherra vel til þess, en mér þykir mikilvægt að við höfum hugann við það af þeim ástæðum sem ég hef hér nefnt. Mig langar þó að spyrja hæstv. innanríkisráðherra í lokin í sambandi við eina tillöguna sem kemur hér fram um að sett verði lög um landslénið .is hvort til standi að leggja fram frumvarp á þessu kjörtímabili eða því næsta um það (Forseti hringir.) og þá hvers vegna ef svo er.