145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:56]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg endurtekið það sem ég sagði í mínu fyrra andsvari að ég tel að samkeppni eigi við á ýmsum sviðum og geti oft verið af hinu góða, en ég tel hins vegar að hún geti alls ekki verið upphaf og endir alls og alls ekki eini mælikvarðinn sem við setjum á hlutina. Ég verð að vera algjörlega ósammála hv. þingmanni í því að hann sé búinn að hrekja eitthvað sundur og saman það sem við höfum fært fram um umhverfisleg og lýðheilsuleg sjónarmið í þessum samningi, síður en svo. Við höfum bent á ýmislegt þar máli okkar til stuðnings. En gott og vel, ef við erum ósammála um þetta þá verður bara svo að vera.

Ég er algjörlega sammála því að þessi samningur og búvörusamningurinn tengist. Þó svo að ég telji að afgreiðsla málanna þurfi ekki að vera samantengd þá ætla ég ekki að gera lítið úr því að efnislega sé ýmislegt í þessum málum sem tengist. Þá hefur það komið fram að skipaður var starfshópur á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis til að kanna áhrif af tollasamningnum og lagðar fram tillögur um það sem þyrfti að skoða sérstaklega. Eitt af því sem ég hef gagnrýnt er þá það sem í rauninni gerist, það er stefna meiri hlutans á þingi að samþykkja þennan tollasamning fyrst en fara svo í einhverjar aðgerðir sem lagðar hafa verið (Forseti hringir.) til í öðru ráðuneyti. Telur þingmaðurinn rétt farið að málum eða tekur hann undir áhyggjur mínar af því að með því að fara þessa leið séum við í raun (Forseti hringir.) að skrifa undir opinn tékka þar sem vilji er til að skrifa undir tollasamninginn og fullgilda hann (Forseti hringir.) en svo ætlum við bara að sjá til hvort það sé eitthvað innan lands sem við þurfum svo seinna að breyta?