145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nú bara glaður að heyra að hv. þingmaður þrætti ekki við mig um mikilvægi samkeppni á afurðastiginu og ég bið hana að taka þetta upp við hv. þm. Ögmund Jónasson á næsta þingflokksfundi vegna þess að það er greinilega hægt að finna ávinning af samkeppni í búvöruframleiðslu. Samkeppni er auðvitað ekki upphaf og endir alls, enginn hefur haldið því fram, en hún hefur góð áhrif í búvöruframleiðslu og sérstaklega afurðastiginu.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um, innleiðinguna á samningnum, þá var þessi nefnd mjög athyglisverð sem var bara skipuð fulltrúum framleiðenda. Það sýnir enn og aftur hinn skakka hugsunarhátt í þessu máli. Ég skil ekki hvernig menn geta almennt lagt slíkar nefndir til grundvallar í svona málum. Auðvitað þurfa neytendur að koma að borði líka, verslunin líka og satt að segja hefur talsmátinn í garð verslunarinnar hérna í þingsölum upp á síðkastið náttúrlega verið þannig að jaðrar við atvinnuróg. Ég held að menn mundu ekki geta komist upp með að segja svona hluti utan þessa salar, satt að segja.

Í þessum tillögum er sumt þess eðlis að það stenst ekki alþjóðlegar skuldbindingar Íslands eins og það að halda áfram uppboðum á innflutningskvótum og nota peningana úr uppboðunum til þess að styðja innlenda framleiðslu. Ísland má ekki gera þetta. Við erum búin að skrifa upp á það. Þetta er bannað. Þá erum við að breyta innflutningskvótum í fjáröflunartolla og til þess höfum við enga heimild. Það sem ég vil gera og lýsti í ræðu minni áðan er að Ísland setji strangar upprunareglur sem gildi um alla innlenda sem erlenda framleiðslu. Ég held að það muni gagnast innlendri framleiðslu. Það er eitthvað sem við getum gert og er okkar að gera. En til þess þurfum við ekki að loka landinu. Til þess þurfum við ekki innstæðulausan hræðsluáróður um það hvað erlend framleiðsla sé vond og skelfileg og skítug og svakaleg.