145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[14:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það kom allt upp í þeirri umræðu, gjörsamlega allt. Þetta var tekið fyrir á mörgum fundum og var mikið rætt, staðsetningin, staða þjóðgarðsvarða, framkvæmdastjóra og stjórnarinnar, allt þetta var mikið rætt. Þegar það er opnað svona, þar sem stjórnfyrirkomulagið er svona ólíkt öðrum stofnunum, þá er eðlilegt að margir hafi á því skoðun. Við ákváðum að vera með mjög opinn huga gagnvart því að breytingar ættu sér stað. Og þessi breyting að færa ákvörðunina um þetta til stjórnarinnar byggir á því að við treystum á að þar verði tekin fagleg ákvörðun um svona mál, þ.e. hvar framkvæmdastjóri á að vera staðsettur og hvernig starfsumhverfi hans á að vera.

Ég hef mínar prívatskoðanir á þessu. Upp á það að gera að markmiðið er að það sé ákveðin valddreifing og öflugt samstarf við heimamenn fyndist mér eðlilegra og betra, líka symbólskt séð, að framkvæmdastjóri, sama hvort þeir verða einn, tveir eða fleiri í framtíðinni, eða starfsstöðin verði nálægt þjóðgarðinum, þ.e. í sveitarfélögunum í kring, og gæti þess vegna færst þar til. Það segi ég þrátt fyrir að hafa haldið ræðu um það áðan að það skipti ekki máli hvar menn væru staðsettir út af tækninni, en það er stundum þannig að það er mikilvægt. Ég tel það vera í þessu tilfelli.

Ég ætla ekki að hafa einhverja sérstaka skoðun á því hvort framkvæmdastjóri þurfi að vera með öðrum eða vera bara einn. En ég held að það sé rétt sem (Forseti hringir.) hv. þingmaður bendir á að samtakamátturinn og styrkurinn sem menn hafa af því að vera í stærra samfélagi skili okkur oftast nær betri árangri.