145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[15:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekkert betur til þess fær að svara því en þingmaðurinn. Ég held að við séum álíka settar með það að við þekkjum þessa innviði nokkuð vel og þekkjum hvað er í gangi á hverjum stað. En við erum ekki með endanlegt svar um það hvernig þessu væri best fyrir komið. Við erum samt sammála um að ástandið eins og það er er ekki besta ástandið.

Ég er sammála hv. þingmanni um að við eigum gríðarlega sterkar stofnanir sem fara að hluta til með verkefni sem eru kjarnaverkefni í starfsemi þeirra, eins og stjórnsýsluverkefni Umhverfisstofnunar og verkefni Landgræðslu og Skógræktar sem eru með öðrum hætti. Ég held að það kalli á, og það er kannski mitt svar við þessu, vilja sem er þverpólitískur og þverfaglegur, að klára þær breytingar sem liggur í augum uppi að þarf að fara í. Ég hef reynslu af því að fara býsna brött inn í umhverfisráðuneytið og ætla mér að fara í alls konar breytingar á stofnanastrúktúr. Í því ráðuneyti eru stofnanir á annan tug, þar sem hægt væri að rökstyðja að þær ættu að vera þrjár eða fimm eða eitthvað slíkt, eitthvað allt annað en þær eru. Hins vegar er eðli málsins samkvæmt og af pólitískum ástæðum, bæði hér í þinginu og úti í samfélaginu, vegna líka tortryggni, verðskuldaðrar eða ekki, í samfélaginu, hjá sveitarfélögunum o.s.frv., mjög þungt fyrir fæti að fara í breytingar. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það líka eftir sína vinnu sem hún hefur tekið að sér fyrir núverandi umhverfisráðherra.

Ég lýsi eftir hugmyndum hv. þingmanns. Ég tel að ef við mundum stilla saman strengi gætum við gert gagn í þessum efnum með sérfræðingum á þeim góðu stofnunum sem við ræðum hér.