145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:43]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem ég sagði áðan. Þegar verðandi foreldri, það er jú ekki orðið foreldri þegar það fer af stað, tekur þessa ólöglegu ákvörðun er það langt ferli. Fólk ákveður því meðvitað að brjóta af sér og reyna að komast til Íslands með því hugarfari. Nú veit ég ekki hversu margir, þess vegna spurði ég áðan, eru í þessu tiltekna dæmi, þ.e. einstæðir karlar eins og hér er tiltekið. Það var engin patentlausn á þessu. Foreldri sem ákveður að fara þessa leið veit um leið og það gerir það að það á ekki þennan rétt. Í fyrsta lagi eiga foreldrar ekki rétt á því að koma með barnið til landsins, það þekkir hv. þingmaður jafn vel og ég, og hefur þurft að veita tilhlýðilegar undanþágur. En fólk reynir og við höfum brugðist við tilteknum dæmum í því sambandi. Ég tel að við höfum, eins og hann nefndi áðan, brugðist við þegar einhver réttir fram höndina og óskar eftir aðstoð en það á samt ekki að hvetja til þess að það sé gert. Mér finnst vera opnað á það hér og það hefur ekkert að gera með rétt til barna. Þeim er alltaf fyrir komið, held ég, innan lagarammans eins og við mögulega getum. En hér á að gera tilraun til að fara út fyrir hann eða fram hjá honum gegn lögum. Ég skil ekki alveg hvernig hægt er að gera hvort tveggja, þ.e. að banna eitthvað en samt á að heimila einhvern einn hlut af því sem er bannað. Ég hef heldur ekki neina sérstaka lausn á þessu.