145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[21:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í upphafsorðum greinargerðar með frumvarpinu, sem ég skrifaði ekki og er ekki meðflutningsmaður að, að frumvarpi þessu sé ætlað að stuðla að jafnrétti barna einstæðra foreldra og tryggja að eins sé staðið að opinberum stuðningi við einstæða foreldra óháð kynferði. Fyrir mér er það ekki aðalatriði hvort þarna standi jafnrétti eða eitthvað annað orð, en mér þykir alveg klárt mál og mjög augljóst að þarna varðar það hagsmuni barna. Mér þykir enn fremur algjörlega kýrskýrt að þetta eru lög sem hafa áhrif á aðstæður barna án tillits til neins sem barnið hefur sjálft tekið þátt í, þ.e. lögbrotinu sem staðgöngumæðrunin er. Mér finnst óhjákvæmilega að hér verði barninu hegnt með einhverjum hætti, kannski ekki í þeim lagatæknilega skilningi sem hv. þingmaður mundi nota orðið, en að barninu verði hegnt í ákveðnum skilningi fyrir afbrot foreldrisins. Ég er í grundvallaratriðum á móti því, sama hvort það heitir hagsmunir barnsins, jafnrétti eða hvað annað. Varðandi rökin sem hv. þingmaður kemur fram með um að allir foreldrar hafi framfærsluskyldu gagnvart börnum þá skil ég þau en mér finnst þau ekki duga gegn þeirri afstöðu sem ég hef lýst. Mér þykja hagsmunir barnsins einfaldlega vega þyngra en viðleitnin til að framfylgja þessum lögum.

Ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki einfaldlega rök gegn barnalífeyri yfir höfuð. Ég velti því fyrir mér en hv. þingmaður getur svarað því betur þar sem hann kom sjálfur með rökin. Ég fæ alla vega ekki séð að það sé aðalatriðið hvort við köllum þetta jafnrétti eða hagsmuni barnsins. Sömuleiðis finnst mér þetta ekki leysa vandann í sambandi við staðgöngumæðrun. Þetta er aðeins eitt af mjög mörgum dæmum þar sem við komum til með að rekast á það að bann við staðgöngumæðrun hafi einhver áhrif á réttindi barnsins. Ríkisborgararéttur er annað dæmi. Ég er viss um að þau eru miklu fleiri.