145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[12:19]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, jú, ég er alveg sammála því að sjómennirnir sem draga fiskinn að landi eigi að fá hlutdeild í því. Þeir fá auðvitað hlutdeild í aflaverðmæti. Það sem ég er að segja er að það eru útgerðir og sjómenn, sem skipta milli sín hagnaðinum þegar hann verður, sem sækja þennan makríl langt út fyrir lögsögu okkar. Það er mikilvægt að þeir njóti þess. Þeir tóku áhættuna, það var örugglega ekki mikill gróði og jafnvel tap á þessu í byrjun. Þeir mynda þennan rétt, að við Íslendingar fáum aflahlutdeild í heildarmakrílkvóta. Ég tel sjálfur að eðlilegt sé að þeir njóti þess. Við njótum þess öll að útgerðin sé hagkvæm, sé sjálfbær útgerð, og ég tel algjörlega óviðeigandi að íslenska ríkið komi hér núna og segi: Ég á allan réttinn. Ég vil bara bjóða út þannig að ég fái sem mest í ríkissjóð í einhverju útboði. Það kann að vera til lengri tíma skaðlegt fyrir íslenska ríkið og ríkissjóð, en það er kannski önnur og miklu stærri umræða. Ég er bara að segja að það skiptir máli að þeir sem tóku áhættuna, fóru langt, mynduðu hana rétt, við getum ekki horft fram hjá því eins og sumir vilja gera. Ég er ekki að halda því fram að hv. þingmaður sé einbeitt í þeim ásetningi heldur að við þurfum að líta til þess að veiðireynslan og að þeir sem kunna þetta, þeir sem hafa gert þetta, njóti frumkvæðis síns með einhverjum hætti. Þannig er allt kerfið okkar byggt upp. Það finnst mér réttlátt. Svo getum við deilt um það hvað á að vera mikil skattlagning á þetta, hvað borgar sig í því. En allt tal um (Forseti hringir.) uppboð finnst mér fullkomlega fráleitt.