145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki út af þeim hv. þingmönnum sem sitja í atvinnuveganefnd sem ég spyr þó að ég skilji að það geti vissulega litið þannig út, heldur vegna þess að það er hv. atvinnuveganefnd en ekki hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem ég hefði haldið að væri miklu eðlilegra að tæki þessi mál fyrir, ekki síst þar sem rökstuðningur hæstv. þáverandi umhverfisráðherra var sá að þetta færi í atvinnuveganefnd vegna þess að þar væri sérstök áhersla á nýtingarhlutann. En ég læt það nú liggja milli hluta. Sjáum til hvernig fer með það allt saman og þingstarfið í kjölfarið.

Ég tók eftir því hér í tillögunni að við Urriðafossvirkjun stendur, með leyfi forseta:

„Rökstuðningur: Óvissu um virkni seiðafleytna og um áhrif vatnsmagns- og rennslisbreytinga á gönguleiðir, hrygningarstöðvar og uppeldisstöðvar laxfiska verður ekki eytt á því stjórnsýslustigi sem verkefnisstjórnin starfar á. Eðlilegt er að um hana sé fjallað í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og við leyfisveitingar.“

Nú er ég ekki sérfræðingur í þessu máli enda frekar stórt og það varð til fyrir mína tíð hér á Alþingi. Ég þekki efnið aðallega út frá bröltinu sem það fór í gegnum fyrr á kjörtímabilinu eins og við munum öll því miður. En það sem ég tek eftir í þessum rökstuðningi er að hvergi er bent á þessi sjónrænu viðmið. Ég átta mig ekki á því hvar þau eiga að koma við. Hér er talað um gönguleiðir og hrygningarstöðvar og uppeldisstöðvar laxfiska. Það er allt rökstuðningur sem er góðra gjalda verður og þess virði að skoða. Ég geri ráð fyrir því að það séu þá viðunandi ferlar sem taki við, ef þetta verður samþykkt hér, sem taki á þessum tilteknu sjónarmiðum. En ég óttast að sjónrænu áhrifin verði hreinlega eftir vegna þess að hvergi er gert ráð fyrir þeim í ferlinu eftir þetta ef skilningur minn er réttur sem ég er ekki viss um að sé tilfellið. Mig langaði því að spyrja hv. þingmann hvort hann telji þann þátt raunverulega verða eftir ef við samþykkjum þetta og við taki einhverjir ferlar sem einungis fari út í þann rökstuðning sem hér er nefndur.