145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú þannig að þessi mál verða alltaf umdeild. Við verðum bara að finna það í hjarta okkar hvar við lendum í þeim efnum. Það er auðvitað enginn möguleiki á því að friða allt sem við gætum hugsað okkur. Það fólk sem talar fyrir að nýting og vernd geti spilað saman er alveg jafn miklir umhverfissinnar og þeir sem kannski taka ekki skrefið í þá áttina að líka þurfi að horfa til þess að við þurfum að virkja eins og á þessu svæði til að styrkja afhendingaröryggi rafmagns og uppbyggingu atvinnu. Heimamenn sem búa þarna vita og við þekkjum nú svæðið í Árneshreppi og á Ströndum að þar er byggð orðin mjög veikburða. Ég vil ekki sjá þá byggð verða eins og Hesteyri í Jökulfjörðum eða Aðalvík á Hornströndum. Það getur vel verið að mörgum þyki gott að koma til Vestfjarða og fara á Hornstrandir og ganga um þessi svæði og hitta ekki annað en aðra ferðamenn, en það er líka fólk sem býr á þessu svæði (Gripið fram í.) sem vinnur við ferðamennsku og það þarf að hafa afhendingaröryggi í rafmagni í ferðamennsku. Menn gera kröfur til þess að hafa góðan aðbúnað, góð hótel og aðstöðu. Fólk á Vestfjörðum þarf líka að hafa atvinnu til að byggja á. Það þarf meiri afhendingaröryggi rafmagns og það þarf meiri orku en það hefur í dag. Þannig eru staðreyndir málsins. Ég mun leggja mig alla fram við að styðja það að á stöðum eins og Vestfjörðum sem eiga undir högg að sækja búi fólk við sömu aðstæður og kjör og á suðvesturhorninu (Forseti hringir.) þar sem hefur verið virkjað hægri, vinstri fyrir álver og þá hefðu fleiri mátt standa í lappirnar og berjast gegn því.