145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[17:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér aftur rammaáætlun eins og við höfum gert nokkrum sinnum og allmikið á þessu kjörtímabili. Ég vil byrja á að segja það að þrátt fyrir ágætt samtal sem ég átti hér við hv. 6. þm. Reykv. s., Róbert Marshall, og fleiri ágæta hv. þingmenn þá þykir mér mjög mikilvægt í þessu máli að við höldum okkur við það sem kemur úr faglegu mati. Ég á þó við smávandamál að stríða sem ég hef aðeins farið yfir í andsvörum áðan. Mér finnst vanta stað fyrir álit sem byggja ekki endilega á faglegum grunni, það er kannski heili vandinn við málaflokkinn í heild sinni að hann er umdeildur í eðli sínu, þetta er spurning um gildismat og mér finnst stundum erfitt að sjá hvar eigi að koma þessu gildismati að. Þá nefni ég enn og aftur Urriðafoss sem ég get ekki greitt atkvæði með tillögu um að virkja. Ég ætla að sjá hvernig umræðan fer varðandi tillöguna í heild sinni, en í ljósi þess að Urriðafoss er undir orkunýtingarflokki þá á ég mjög erfitt með þessa tillögu. Ég ætti strax mun auðveldara með hana ef hann væri ekki þarna inni eftir að hafa skoðað allnokkra aðra kosti sem eru í orkunýtingarflokknum. Það verður líka að segjast eins og er að nokkuð margir kostir eru í verndarflokki sem kemur á móti og róar auðvitað taugarnar mikið gagnvart þessari tillögu, en enn á ég við það vandamál að stríða að ég átta mig ekki á því hvar við ætlum að koma að hinu pólitíska gildismati, ef við getum kallað það svo.

Í þessari umræðu er alltaf hætt við því að farið sé út í þessa umkenningaleiki, hver hafi byrjað á því að brjóta lög eða eitthvað því um líkt. Sú umræða var og er mjög leiðinleg og það er leiðinlegt að við þurfum að eiga hana. Ég man að síðast þegar við vorum að ræða um mál tengd rammaáætlun fannst mér mikilvægast af öllu að bjarga rammaáætlun, ég leit þannig á það, þannig að ferlið gæti a.m.k. haldið áfram í sátt jafnvel þó að fólk væri ósátt við tiltekna virkjunarkosti. Ég er enn þá þeirrar sannfæringar. Mér finnst lykilatriði að sátt sé um ferlið vegna þess að ef svo er ekki endar þetta í sömu bitru, hatrömmu umræðunni og við lentum í fyrr á kjörtímabilinu. Sú umræða verður náttúrlega aldrei mjög fagleg, hún verður mjög fljótt ómálefnaleg og hún er þinginu ekki til mikils sóma út á við heldur, sem er nokkuð sem ég hygg nú að flestir þingmenn leyfi sér að hafa áhyggjur af endrum og sinnum enda þó nokkur ástæða til, en kannski ekki á hverri sekúndu enda væri erfitt að koma einhverju að ef maður ætlaði stanslaust að hafa áhyggjur af því og mundi taka mikið rými í lífi hvers þingmanns.

Þegar ég sá þessa tillögu fyrst langaði mig ekki sérstaklega til að fagna, verð ég að viðurkenna. Mér finnst samt gott að hún sé komin fram jafnvel þó að hún fari bara til nefndar og til umsagnar. Ég verð þó að segja að ég átta mig ekki á því hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér framhald málsins, hvort væntingarnar séu þær að málið klárist á þessu þingi. Eins og alltaf þá er óljóst hvernig menn ætla að forgangsraða núna, Alþingi er ekki skipulagðara en svo, því miður, en ég sé a.m.k. ekki fyrir mér hvernig menn ætla að fara með þetta mál í gegn á þessu þingi. Það er skammur tími eftir. Ég geri ráð fyrir því að nefndin, hvaða nefnd sem það verður, þurfi sinn tíma til þess að fara yfir málið. Hér er þó nokkuð meira af hlutum til að ræða en síðast því að þá vorum við að ræða um breytingartillögur hv. atvinnuveganefndar sem voru ekki svona umfangsmiklar. Ég sé ekki hvernig þetta kemst fyrir tímans vegna í starfsáætlun þingsins.

Annað sem ég vil nefna sérstaklega er að nú þegar er kominn upp sami ágreiningur og kom upp síðast, sem er í hvaða nefnd málið á að fara. Það skiptir máli. Það skiptir máli vegna þess að verkefni nefndanna eru ekki þau sömu. Eins og kemur fram í ræðu þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, hana má finna á vef Alþingis, fór málið síðast til hv. atvinnuveganefndar á þeim forsendum að verið væri að flytja kosti úr biðflokki yfir í nýtingarflokk, ekkert inn í verndarflokk. Það var séð sem ákveðið atvinnuveganefndarmál á þeim tíma samkvæmt þáverandi hæstv. ráðherra en ekki samkvæmt þáverandi hv. formanni atvinnuveganefndar. Þá var orðræðan öðruvísi. Orðræðan fór beinustu leið út í það að þetta væri eitthvað sem þeir hefðu viljað á sínum tíma á síðasta kjörtímabili, nú ætluðu þeir að kýla það í gegn vegna þess að þannig virkar pólitíkin. Leiðinlegur málflutningur eins og gefur að skilja og við munum öll. Það var því ekki einu sinni samhljómur meðal meirihlutaflokkanna um það hvers vegna menn vildu að málið færi til þessarar nefndar. Það mátti vissulega finna það viðhorf hjá sumum að málið væri einfaldlega atvinnuveganefndareðlis og ég hygg að það viðhorf sé enn til staðar með hliðsjón af þeirri staðreynd að málið á að fara til hv. atvinnuveganefndar aftur. Ég er þessu algjörlega ósammála. Málið á alveg klárlega heima í umhverfis- og samgöngunefnd. Mér finnst það engin spurning. Ef það væri bara ein ástæða til þess að setja málið þangað þá er það sú staðreynd að þarna er líka verið að setja virkjunarkosti í verndarflokk ásamt nýtingarflokki og í biðflokk, en miklu fleiri í verndarflokk. Ef við viljum bítast um það í hvaða nefnd þetta á að fara út frá því hvort verið sé að setja kosti í verndar- eða nýtingarflokk þá hlýtur áherslan að vera meiri á umhverfis- og samgöngunefnd ef það eru gild rök. Að vísu er ég þeirrar skoðunar að þetta eigi einfaldlega heima í umhverfis- og samgöngunefnd og met það svo út frá stuttri ræðu virðulegs forseta frá þeim tíma sem við vorum síðast að bítast um þetta mál.

Það er annað sem vekur mér líka ákveðinn óhug við að sjá Urriðafossvirkjun þarna inni, en það er einn af mjög fáum kostum sem ég hef skoðað eitthvað af viti af þeim sem eru taldir upp í allri tillögunni enda hef ég nánast einvörðungu komið að þessu máli við meðferð þingsins á því áður á kjörtímabilinu, þ.e. með öllu því sem fylgdi meðferð málsins hjá hv. formanni atvinnuveganefndar á sínum tíma. Sú staðreynd að mönnum detti í hug að virkja Urriðafoss grefur satt best að segja undan trú minni á ferlinu. Þá er ég ekki að gefa í skyn að ég muni á einhvern hátt reyna að standa í vegi fyrir því eða koma fram með einhverjar breytingartillögur, það stendur ekki til af minni hálfu né nokkurs annars svo ég viti á hinu háa Alþingi, en mér finnst þess virði að nefna þetta vegna þess að við hljótum að ætla að meta ferlið og niðurstöðurnar einhvern veginn innan þess sem maður kallar ramma raunveruleikans. Ég hefði ekki haldið að fyrra bragði að Urriðafoss kæmi til greina. Vissulega hefur maður tekið eftir því að það er ekki mikill túrismi þar, var það ekki síðast þegar ég sá hann og ekki þarsíðast heldur en það getur breyst og burt séð frá því þá er um að ræða náttúruperlu sem engum dettur í hug að virkja.

Það er auðvitað erfitt að koma svona sjónarmiðum að í faglegu ferli með góðum árangri, ef það er þá mögulegt, og í því liggur vandinn. Í því liggur vandi minn gagnvart þessari tillögu. Það er nákvæmlega þar. Í því felst engin gagnrýni á faglegheitin. Þvert á móti er þetta vandamál vegna þess að faglegheitin gera þessi sjónarmið í raun erfiðari þannig að ég á í vandræðum með þetta. Á sama tíma eins og ég hef útlistað þykir mér afskaplega mikilvægt að ferlið njóti einhverrar sáttar og finnst mikilvægt að rammaáætlun verði áfram sú leið sem við notum til þess að fara með málið. Hvaða kostir felast í því er eitthvað sem ég tel að taki tíma að skoða hér á hinu háa Alþingi. Hér er um allmarga kosti að ræða. Bara eftir að hafa skoðað Urriðafoss, Holtavirkjun, Hvammsvirkjun og Skrokkölduvirkjun þegar við töluðum um þetta síðast þá tel ég að hér séu miklu fleiri kostir sem hljóti líka að verðskulda sambærilega athugun til þess að við vitum hvort niðurstöðurnar eru í samræmi við þá pólitísku sýn sem við höfum á markmið rammaáætlunar. Það er ekki til þess að storka fagmennskunni á bak við rammaáætlun. Það er bara til þess að við stöndum okkar plikt og förum pólitískt í málið því að það er það sem við eigum að gera hér. Við getum ekki hafnað því hlutverki. Í því liggur vandinn.