145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 97/2016 um breytingu á XVI. viðauka við EES-samninginn.

864. mál
[19:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir spurningu hv. þingmanns. Við höfum aðkomu að þessu, til að mynda í sameiginlegu EES-nefndinni. Við erum að sjálfsögðu með starfsfólk sem starfar í Brussel í sendiráðinu okkar sem vaktar þessar tilskipanir. Við erum með ansi góða sveit þar sem flokkar þetta eins og ég nefndi áðan. Það skiptir okkur miklu máli.

Þegar við lítum á hagsmuni Íslands þá skipta auðvitað ákveðnar atvinnugreinar máli, til að mynda útflutningsgreinarnar sem við viljum passa upp á að gangi allar vel og hafi greiðan aðgang að þeim mörkuðum sem skipta okkur máli. Svo eru aðrar tilskipanir til að mynda varðandi heilbrigðismál jafnvel sem við þurfum kannski að huga sérstaklega að hvernig við innleiðum og annað slíkt. Við erum auðvitað líka með fólk í öllum okkar ráðuneytum sem er með þessa vöktun í gangi. Það vill þannig til að við erum að setja aukið fjármagn í þennan málaflokk til að gera einmitt það sem hv. þingmaður er að nefna, að skoða þetta betur og reyna að hafa enn frekari áhrif á fyrri stigum málsins.