145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[20:48]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svarið og get alveg tekið undir með hv. þingmanni að í hvaða nefnd málið lendir er kannski ekki aðalmálið, heldur að sú vinna sem þegar hefur átt sér stað verði nýtt. Það var nú þannig, svo maður fari hérna í smá söguskýringar, á síðasta kjörtímabili að þá var ákveðið að breyta nefndaskipan. Nefndunum var fækkað í stærri nefndir til að nefndirnar væru í raun og veru sjálfstæðari gagnvart ráðuneytunum en áður var. Ég er ekki alveg viss um að það hafi heppnast. En í raun og veru á ekki að skipta máli í hvaða nefnd mál fara ef það er augljóst að þau eiga heima í einhverri annarri nefnd en heyrir beint undir ráðherra. Innanríkisráðuneytið er með samgöngumál líka, ættu þá öll mál frá innanríkisráðuneytinu að fara t.d. til allsherjarnefndar?

Ég mun alla vega leggja mitt af mörkum sem þingflokksformaður að leggja áherslu á að þetta mál verði eitt af forgangsmálunum sem fari í gegn. Mér skilst að það sé markmið hjá bæði formönnum flokka og vonandi þingflokksformönnum öðrum. Þannig að ég er mjög bjartsýn á að málið klárist, sér í lagi af því að það er ekki mikill þungi á málum í þeim nefndum sem standa til boða, og það fari í gegn. Mér finnst frábært að heyra þær lausnamiðuðu tillögur sem hér hafa komið fram í andsvörum um hvað hægt sé að gera til þess að tryggja að málið verði endanlega og loksins samþykkt hér á landi. Það er hneisa hversu langan tíma það hefur tekið, en tek undir með hv. þingmanni að ljóst er að það mun ekki þýða, því miður, að allir sem búa við fötlun (Forseti hringir.) fái að njóta blóma í haga (Forseti hringir.) þrátt fyrir að hér sé góðæri.