145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[20:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig auðvitað á því að þetta er býsna sértækt dæmi. Reyndar gæti það nú flækt málið enn frekar ef enginn væri í ökuhæfu ástandi á hvorugum staðnum og erfitt að fara á milli með diskinn, eins og vill nú stundum gerast í svona partíhaldi. En ástæðan fyrir því að ég spyr svona er sú að ég er þeirrar skoðunar að það sé ekkert fráleitt, og er þar ósammála hv. þingmanni, að líta svo á. Dómar munu ganga út á það aftur og aftur, búið er að fara yfir það, að með því að þessi tækni sé til, þessi geta til að gera afritin, hvort sem það er í sértæku dæmi eins og ég er með hér eða bara fjölda annarra dæma sem geta komið upp — ég er viss um að klókir lögfræðingar geta talið upp langa lista af slíku máli sínu til rökstuðnings — þá sé kannski ekkert fráleitt að nota það orðalag að um sé að ræða „bætur“ vegna skaða.

Hv. þingmaður hefur bent á að kannski væri nær að nota annað hugtak. Ég hef svo sem enga sérstaka stóra skoðun á því. En ég mundi samt sem áður fara varlega í að breyta því í lagatextanum út af þeim dómafordæmum sem liggja fyrir og eru til grundvallar þeirri niðurstöðu sem birtist í frumvarpinu. Ég ítreka það að ég held að það eigi að vera hægt að ná góðri samstöðu um þetta mál á þeim grundvelli að við erum að gera afritunargerðina löglega. Við erum því öll að hegða okkur í samræmi við lög þegar við tökum upp lögin og förum með þau upp í sumarbústað og spilum þau samtímis heima hjá okkur og hvað það er, þ.e. að það sé engin réttaróvissa þar. En vegna þeirrar spurningar sem kom upp varðandi ólögleg afrit þá nær þetta ekki til þeirrar umræðu. Hér er um að ræða eintök sem eru lögleg og afrit eru gerð af. Annað gildir um eitthvað sem menn hafa fengið með ólögmætum hætti. Ekki er verið að greiða fyrir afritun á slíku efni. Það eru líka til dómafordæmi um þann þátt.