145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[21:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór hér með fyrsta hlutann af ræðu sinni fremur en andsvar. Mig langar þá að velta því upp sem hv. þingmaður nefnir, þessum frumkvæðisrétti sem hann er að vísa í. Ég velti því upp að augljóslega, nú tek ég það aftur fram að ég sat ekki fundi utanríkismálanefndar um þessi mál, er neyðarfyrirvari, neyðarhemillinn, settur til þess að bregðast við því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson vísar hér í, þ.e. að ef neyðarástand skapast þá sé fyrir hendi sú bókun sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans, að um það ríki sameiginlegur skilningur, eftir því sem mér skilst, á vettvangi EES-ríkjanna. Ég spyr hv. þingmann: Hversu megnuga telur hann þessa bókun vera, þessa bókun sem hefur verið lögð fram í sameiginlegu EES-nefndinni sem fyrirvari íslenskra stjórnvalda við innleiðingu gjörðarinnar, væntanlega til að bregðast við því sem hv. þingmaður réttilega bendir á í andsvari sínu? Ég spyr hv. þingmann sem þekkir þetta alþjóðlega umhverfi betur en flestir hér inni: Hvaða máli mun sá neyðarhemill skipta og mun hann halda? Það er kannski stóra spurningin sem við ættum að vera að ræða hér. Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að þau telji það garanterað, svo að ég sletti, að um þennan fyrirvara sé sameiginlegur skilningur. Ég veit ekki til þess að slíkur fyrirvari hafi verið settur af öðrum EFTA-ríkjum inn í þetta.