145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða almennt um störf okkar í þinginu í því ljósi að það er skjálfti í umræðum og störfum okkar hér af því að í Ríkisútvarpinu byrjaði hin formlega kosningabarátta í gær. Þá hefur verið afskaplega ánægjulegt, verð ég að segja, að fylgjast með þeim anda sem verið hefur yfir þingstörfunum undanfarið og það er gott fyrir nýjan þingmann að upplifa slík þinglok, þótt vissulega sé það við mjög sérstakar aðstæður. Ég ætla ekki að gerast svo djarfur að leggja mat á spennustigið eða hvernig það birtist í umræðunum. En í nefndunum og á þingi eru mörg stór mál og mikilvægt er að við vöndum til verka eins og alltaf.

Af því að ég minntist á kosningar og spennustigið í vinnu okkar hefur hæstv. ríkisstjórn áorkað mjög miklu í mörgum stórum málum á þessu kjörtímabili. Ég nefni í fyrsta lagi hallalaus fjárlög í þrígang, og verð að segja að það er miður að við séum ekki að fara að leggja fram fjórðu fjárlögin. Í öðru lagi er það skuldaleiðréttingin, sem birtist okkur í því að heimili landsins eru búin að lækka skuldir sínar verulega og hér er aukinn sparnaður. Í þriðja lagi erum við að taka annað skrefið í losun hafta. Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvað kjósendur munu hugsa (Forseti hringir.) í framhaldinu, hvort við erum á leið til að gjörbylta öllum kerfum eða hvort við ætlum að halda áfram að vinna með stór mál og stöðugleika.