145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[14:30]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég virði og tek auðvitað mark á þeirri afstöðu þingmannsins sem hún lýsir hér. Hún er andvíg þessu verkefni og það er afstaða sem ég ber virðingu fyrir. Líka það sem hv. þingmaður sagði — auðvitað ber ég sem flutningsmaður þessa máls ábyrgð á því og þeirri ábyrgð gengst ég við. Það var ekki einfalt vegna þess að þetta er í sjálfu sér ekki mál sem heyrir undir ráðuneyti mitt. Ráðuneyti mitt veitir alla jafna ekki framkvæmdaleyfi og hefur ekki með þann málaflokk að gera. En í ljósi þess hversu mikilvægt þetta er, til að mynda varðandi þá málaflokka sem ég ber ábyrgð á, þá stend ég hér og ber þá ábyrgð og tek hana að mér, ég segi ekki með glöðu geði því að þetta er ekki mál sem nokkur maður fagnar að þurfi að koma fram, en þetta er mál sem þarf að koma fram.

Það var annað sem ég gleymdi að leggja áherslu á, ég nefndi það í framsögu minni, í fyrra svari mínu til þingmannsins varðandi af hverju við förum þessa leið og það er ekki síst áskorun sem við fengum frá sveitarfélögunum, sem þetta mál varðar hvað mest. Þau sendu okkur beinlínis áskorun, og það er líka fylgiskjal með frumvarpinu, um að ríkisstjórn og löggjafinn þyrftu að bregðast við þessu ástandi. Það er áskorun sem við tókum mjög alvarlega. Þegar útséð var um það að við gætum náð sáttum á milli aðila var ákveðið að taka þessa afstöðu.

Ástæða þess að ég óskaði eftir því að þingmenn, hvaða afstöðu sem (Forseti hringir.) þeir hefðu efnislega til málsins, mundu aðstoða okkur við að afgreiða þetta mál frá þinginu er þeir miklu hagsmunir sem ég er (Forseti hringir.) búin að fara yfir og vegna þess að hver dagur skiptir gríðarlega miklu máli.