145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

einkarekstur í heilsugæslunni.

[11:34]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég skil spurningu hv. þingmanns sem svo að hún snúist um almenna pólitík og stefnu, en ekki kannski nákvæmlega rekstur þessa málaflokks enda heyrir það undir heilbrigðisráðherrann. Þannig er að ríkisstjórnin og heilbrigðisráðuneytið og ráðherrann hafa lagt áherslu á að styrkja heilsugæsluna. Það er einhver sá mikilvægasti þáttur sem ég held að við séum sammála um að hafi þurft að bæta í heilbrigðisrekstrinum. Það hefur m.a. verið gert með því að fjölga heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu þar sem hefur verið einna mestur skortur á heimilislæknum. Við þekkjum það líka úr fortíðinni, getum horft kannski tíu, fimmtán ár aftur í tímann, að erfitt hefur verið að fá heimilislækna, eða lækna til að taka að sér sérgreinina heimilislækningar, meðal annars vegna þess að þeir hafa haft bara eitt form til að fara inn í, þ.e. að starfa á ríkisreknum heilsugæslum, á meðan aðrir sérgreinalæknar hafa farið í rekstur með ólíkum hætti. Við þá breytingu sem menn gerðu fyrir nokkrum árum — og ég man ekki eftir öðru en að Samfylkingin hafi tekið þátt í því og Framsóknarflokkurinn gerði það líka, að setja upp rekstur t.d. á Salastöðinni og öðrum stöðvum sem hafa gengið mjög vel og verið góð fyrirmynd þess hvernig hægt er að reka heilsugæslu með öflugum hætti — þá hefur það líka gerst á þessum liðnum árum að við höfum séð að fjölgað hefur í hópi unglækna sem velja sér heimilislækningar sem sérgrein. Sá vandi sem við höfum staðið fyrst og fremst frammi fyrir, að við höfum búið við skort á læknum til að sinna heimilislækningum, hefur breyst vegna þess að þeir sjá fyrir sér aukin tækifæri eins og aðrir sérgreinalæknar í landinu. Þess vegna hefur þetta verið góð stefna, góð þróun. Hún er í samræmi við það sem er á Norðurlöndunum og Framsóknarflokkurinn leggur fyrst og fremst áherslu á að allir geti sótt sér (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Það er gert í þessu kerfi þar sem fjármunirnir flytjast með sjúklingunum en eru ekki bundnir við heilsugæslustöðvarnar. Það er lykilatriði að þjónustan sé í boði, (Forseti hringir.) að læknarnir séu í boði og með þessari stefnu, sem hefur verið sú sama og á Norðurlöndunum, hefur það gengið eftir.