145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

niðurgreitt innanlandsflug.

[11:51]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mér finnst ánægjulegt að heyra áhuga hæstv. forsætisráðherra á þessu máli. Ég er í Facebook-hópi sem heitir Dýrt innanlandsflug sem Ívar Ingimarsson stendur fyrir. Hann var í fréttunum í gær eða fyrradag. Að hans mati eru þessi dýru flugfargjöld eitt stærsta byggðamálið. Ég þekki það sjálf, búandi á Akureyri. Þó að ég fái núna ferðakostnaðinn greiddan er þetta farartálmi. Þetta getur raunverulega staðið í vegi fyrir að byggð byggist upp. Það skiptir máli að hafa aðgang að þeim öruggu samgöngum sem flugsamgöngur eru í rauninni allan ársins hring.

Ég vona að á næsta kjörtímabili verði farið í þetta mál. Við höfum Skotland sem fyrirmynd, sem er í ESB enn þá. Ég er sammála því að við erum oft kaþólskari en páfinn þegar kemur að innleiðingu á þessum tilskipunum. Það ætti ekki að vera vandamálið. Láta greina hvað við erum að tala um þarna í peningum. Er þetta ekki þess virði? Ég verð að segja að ef ég byggi ekki í Eyjafirðinum og ætlaði að flytja mig um set mundi ég örugglega flytja á Austurlandið. Alveg ótrúlega fallegt svæði, fjölbreytileiki að einhverju leyti, kannski ekki mikill í atvinnulífinu en samt eru störf þar í boði. En einhverra hluta vegna fjölgar íbúum þar ekki eins og maður gæti haldið. Fjarlægðin við höfuðborgina skiptir máli. Ég held, ef við höfum t.d. Akureyri í huga, að það að geta komist fram og til baka á einum degi, vita að maður getur það, það hefur áhrif. Og fara í jarðarfarir, fermingarveislur, til læknis og allt þetta sem við þurfum að sækja.

Hér erum við að tala um einhvers konar flutningsjöfnunarsjóð. Ekki fyrir olíu heldur fyrir fólk. Að við jöfnum þann aðstöðumun sem er á milli fólks sem býr við höfuðborgarsvæðið og þeirra sem búa úti á landi. (Forseti hringir.) Ég vona að farið verði í þetta af einhverri alvöru.