145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:11]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Mér er algjörlega misboðið. Í gær segir forseti á þingflokksformannafundi að hæstv. forsætisráðherra ætli að hafa samband við stjórnarandstöðuformenn. Hvað gerist svo? Ekki neitt. Hann hringir í einn og einn og svo er kominn næsti dagur. Starfslok í þinginu eru á fimmtudaginn og það síðasta sem ég heyrði frá honum áðan var að við mundum hugsanlega, mögulega funda eftir að hann væri búinn að tala við hinn formann ríkisstjórnarinnar.

Mér finnst þetta ekki boðlegt, mér er bara algjörlega og fullkomlega misboðið, forseti. Mér er misboðið fyrir hönd þingsins, mér er misboðið að hér séu það þingmenn stjórnarandstöðunnar sem halda þinginu gangandi dag eftir dag af því að langflestir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna — það er einn í salnum núna — (Forseti hringir.) eru bara úti í sínum kjördæmum í bullandi kosningabaráttu. Það er óboðlegt. Hvar er „passjónin“ fyrir málunum?