145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til þess að halda áfram með tillögu frá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur sem kom fram fyrr í dag varðandi það að þegar við erum komin í svona tímakreppu getum við að sjálfsögðu ekki afgreitt neitt nema nauðsynlegustu dagsetningarmálin. Mín tillaga er sú að þingfundaskrifstofa taki saman með forseta þau mál sem nauðsynlega, mögulega, kann að þurfa að afgreiða vegna dagsetninga — ég er ekki viss um að þau séu yfir höfuð hér í þinginu — fari yfir þau og haldi svo fund með þingflokksformönnum um þá niðurstöðu. Það ætti að vera hægt hér í kvöldverðarhléi, það er nú ekki slík vinna að fara í gegnum það, og síðan verði samið um hvernig við klárum málin. Við hljótum að geta það á þeim tveimur dögum sem eftir er af þinginu. Það væri okkur til sóma og þar með væri forseti líka að bjarga ásýnd Alþingis.