145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[18:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Það er nú svo með fjáraukalögin eins og mörg önnur að þar er ýmislegt inni sem telst vart til ófyrirséðra útgjalda og það á örugglega eftir að koma fyrir síðar líka, ekki bara núna. Manni dettur einna helst í hug fyrsti liðurinn um æðstu stjórn ríkisins, þ.e. með forsetann og heimasíðu. Ef heimasíðan er eldgömul þá er þetta ekki nýtt og ljóst að þetta þyrfti að gera. Þarna er auðvitað ekki um mikla peninga að ræða en þetta er samt sem áður að verða venja frekar en undantekning að embættið fái árlega einhverjar viðbætur.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra um þrennt. Rannsóknarnefndir Alþingis er hér liður. Þar er verið að sækja um framlag vegna rannsóknar á þátttöku þýska bankans í kaupum á tæplega helmingshlut ríkisins í Búnaðarbanka. Þessu á að ljúka núna á árinu. Mig langar til að vita hvort ráðherrann getur eitthvað sagt um stöðu málsins, hvort hann hefur hugmynd um hvar málið er statt.

Annað sem mig langar til þess að spyrja um er á bls. 40 þar sem óskað er eftir 27 millj. kr. fjárheimild vegna samnings við Lundúnaskrifstofu alþjóðlega almannatengslafyrirtækisins Burson-Marsteller. Þar kemur fram að ríkisstjórnin hafi ákveðið að ganga til samstarfs við fyrirtækið sem tæki til ráðgjafar og þjónustu á sviði efnahagsmála, sjávarútvegsmála og annarra málasviða á alþjóðlegum vettvangi. Þetta er samstarf sem byrjaði í sumar og á að standa til ársloka. Mig langar til þess að ráðherrann segi í rauninni bara um hvað málið snýst, hvað er þarna á ferðinni.