145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[18:40]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Stóri liðurinn hérna eru lífeyrisskuldbindingarnar og mig langar aðeins að forvitnast. Ég er í rauninni ánægð með að þessari vinnu sé lokið og frumvarp komið inn í þingið þótt það hefði þurft að koma fyrr til þess að við næðum að klára það og ekkert útséð með hvernig það fer, vonandi heldur það bara áfram á næsta kjörtímabili. En þetta eru tvö mál. Getum við samþykkt fjáraukann með þessari upphæð ef við erum ekki búin að samþykkja stóra lífeyrismálið? Ég velti fyrir mér hvernig þetta hangir saman praktískt séð, af því ég hef áhyggjur af því að við náum ekki að klára hitt málið. Fjáraukinn er auðvitað mál sem er lítið mál að klára en nákvæmlega þessi liður er í rauninni það sem kallar á umræður og ítarlega skoðun og hangir algjörlega saman við hitt málið. Hvernig praktískt séð sér hæstv. ráðherra það fyrir sér ef við náum ekki að klára lífeyrismálið, sem ég er hrædd um að við náum ekki?