145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[12:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög en gera fyrst og fremst grein fyrir þeim fyrirvara sem ég setti við nefndarálitið.

Ég vil fyrst segja að þetta er líklega fyrsta frumvarpið um losun hafta þar sem við höfum fengið tíma til að fara yfir málið. Það er auðvitað ánægjulegt að við höfum gefið okkur tíma til þess að reifa ólík sjónarmið og fara yfir efnisatriði málsins, sem er í sjálfu sér ekkert sérstaklega flókið. Það sem ég geri enn þá athugasemd við og gerði við 1. umr. þessa máls er að þetta var kynnt sem sérstakt átaksmál fyrir almenning. Ég efast um að allur almenningur muni finna mikið fyrir þessum breytingum, nema þeir sem eru í stærri viðskiptum. Vissulega er þetta hins vegar skref í átt að losun hafta sem við höfum öll tekið þátt í og stutt. Það er varfærið. Ég er sammála því að eðlilegt sé að hafa þessi skref varfærin. Ég er sammála því sjónarmiði sem kom fram við umræðu nefndarinnar að það er eðlilegt að við tímasetjum ekki endanlegt afnám hafta fram í tímann. Í sjálfu sér var því ágætt að fá tíma til þess að taka þessa umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd.

Eftir stendur að við erum með verkefni fram undan hvað varðar afnám hafta. Verkefninu er ekki lokið. Það hefur komið fram á þessu þingi að þrátt fyrir lítinn vilja ríkisstjórnarinnar, sérstaklega framan af kjörtímabilinu, til að hafa samráð við stjórnarandstöðuna um þau skref sem ætti að taka þá hefur stjórnarandstaðan sýnt í öllum þessum málum að hún er reiðubúin til þess að taka ábyrga afstöðu í þeim, þannig að það þarf ekki að vera nokkur ástæða til að óttast að það verði breytingar á því þótt það verði ríkisstjórnarskipti í landinu, eins og stundum hefur verið gefið til kynna af hv. forustumönnum ríkisstjórnarinnar.

Hvað varðar fyrirvara minn, sem er það sem ég vildi ræða, tengist hann því sem hv. þm. Brynjar Níelsson og hv. þm. helgi Hrafn Gunnarsson ræddu áðan, þ.e. heimildir til upplýsingaöflunar. Ég tel að sú niðurstaða sé málefnaleg að við reynum að fylgja leiðbeiningum Persónuverndar um að reyna að afmarka betur hvaða heimildir það eru sem Seðlabankinn fær til upplýsingaöflunar og hvaða hagsmunir eigi að liggja þar að baki. Það er mikilvægt þegar við erum að skilgreina slíkar heimildir í lögum að þar liggi fyrir hagsmunir. Eins og kom fram og kemur fram í nefndarálitinu hafa verið mjög ríkir hagsmunir til þess að hafa heimildir til upplýsingaöflunar. Þetta er eitt af því sem var vanrækt í aðdraganda hrunsins, að fylgjast með fjármagnshreyfingum. Það er því mikilvægt að þessar heimildir séu fyrir hendi, en það er líka mikilvægt að leitast sé við að afmarka þær og skilgreina.

Það sem ég vil fyrst og fremst segja hvað varðar fyrirvara minn er að hér er verið að þrengja þessar heimildir. Það er ekki útilokað að við munum þurfa að taka það til endurskoðunar. Við munum þurfa að hafa samráð, og á það legg ég áherslu, Alþingi, löggjafarsamkundan, við Seðlabankann og fjármálaráðuneytið um það hvernig þessi afmörkun gefst og hvaða vandkvæði kunna að koma upp. Ég held að í þeim málum þurfum við að vera tilbúin til að bregðast við í raun og veru óvæntum aðstæðum.

Ég tel að það hafi verið stigið ágætisskref í að reyna að afmarka þetta, en ég held að við verðum líka að hafa opin augu fyrir því að það kann að þurfa að vera nauðsynlegt að breyta þessum heimildum aftur ef þær hafa verið of þröngt afmarkaðar að þessu sinni. Ég tel að við höfum reynt að gæta meðalhófs í því hvernig það var stigið. Eins og bent er á geta verið gríðarlegir þjóðhagslegir hagsmunir undir í því að við höfum skýra sýn á fjármagnshreyfingar til og frá landinu og þá er mjög mikilvægt að við sköpum ekki einhverjar hjáleiðir þar sem geta farið fram hjá viðeigandi aðilum.

Þetta er fyrst og fremst það sem ég vildi segja hvað varðar fyrirvara minn við málið. Ég styð þetta skref en tel að við þurfum að vera vakandi fyrir framkvæmdinni á því hvernig þessar heimildir verða nýttar og hvort þær séu skilgreindar á nægjanlega skýran og skilvirkan hátt.