145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[16:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Talandi um sofandahátt og kæruleysi þá velti ég fyrir mér: Nú er klukkan orðin rúmlega tíu mínútur yfir fjögur og ég spyr hér aftur eins og ég hef spurt áður í dag og mun halda áfram að spyrja, eins og málefnalegt og sjálfsagt er undir þessum kringumstæðum, hvort eitthvað sé að frétta, hvenær við getum búist við því að eitthvað sé að frétta og ef ekkert er að frétta væri gott að vita það líka því að það væru undir þessum kringumstæðum fréttir. Ég hef farið yfir þetta áður og mun halda áfram að fara yfir þetta þar til viðbrögð fást við þessu.

Ég heyrði hérna út undan mér frammi áðan að einhver stjórnarliði sagði að einhvers konar málþóf væri í gangi. Hér er verið að nýta tímann til að tala um og spyrja þess sem spyrja þarf. Hér þarf að spyrja að þessu. Og ef menn vilja lausn á þinginu þurfa þeir að tala um hvernig þingið á að vera næstu vikuna eða vikurnar eða hvernig það er. Það að vita hvort menn séu yfirhöfuð að reyna að komast að því hvernig þeir ætli að leggja þetta fram er spurningin sem liggur fyrir. (Forseti hringir.) Ég tek undir með þeim ágæta hv. þingmanni sem talaði um þetta frammi í sal, það er alveg kominn tími til að spara allan þann tíma sem mögulegt er í því efni.