145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

samningar um NPA-þjónustu.

[10:52]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Við höfum í þessari viku séð fréttir af því að fólk með fötlun hefur þurft að bíða eftir samningi um notendastýrða persónulega aðstoð. Síðast í gær var frétt um ungan mann sem hefur beðið í fimm ár eftir að fá nauðsynlegan samning um notendastýrða persónulega aðstoð sem mundi skipta sköpum fyrir hann. Mér finnst sorglegt að sjá þessar fréttir í ljósi þess að þingið er fyrir löngu búið að ákveða einróma að notendastýrð persónuleg aðstoð, sem er lykilatriði í að tryggja fólki með fötlun sjálfstætt líf, skuli vera lögbundið þjónustuform á Íslandi, bjóðast öllu fólki með fötlun. Þetta var samþykkt með þingsályktunartillögu og líka sett í lög árið 2014 að þetta yrði að vera varanlegt þjónustuform og bjóðast öllu fólki með fötlun. En hæstv. ráðherra fékk einhverra hluta vegna framlengingu um tvö ár fyrir ákveðið tilraunaverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð, innleiðingarverkefni vil ég kalla það. Þetta átti þá að verða að lögum 2016. Notendastýrð persónuleg aðstoð átti að verða lögbundinn valkostur fyrir fólk með fötlun árið 2016.

Nú er 2016. Farið er að síga á seinni hlutann á ráðherraferli hæstv. ráðherra, alla vega í bili. Það bólar ekkert á því frumvarpi. Af hverju hefur notendastýrð persónuleg aðstoð ekki verið lögfest sem þjónustuform eins og þingið er búið að ákveða? Og önnur spurning: Gera átti rannsókn á þessu innleiðingarverkefni, hvernig það hefði gengið, hver kostnaðurinn væri, hver ábatinn væri, hvort notendur og aðrir aðstandendur væru ánægðir með þetta. Nú er mér kunnugt um að þeirri rannsókn er löngu lokið. Af hverju hefur niðurstaðan, sem mér skilst að sé einkar jákvæð fyrir notendastýrða persónulega aðstoð, mjög jákvæð viðhorf notenda, aðstandenda, fólks í sveitarstjórnum, fólks í þessari þjónustu — það kemur þar fram, (Forseti hringir.) skilst mér, að ábatinn sé miklu meiri en samfélagslegi kostnaðurinn. Af hverju hefur skýrslan ekki verið kynnt?