145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:46]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta er kunnugleg staða og kemur alltaf jafn mikið á óvart og er alltaf jafn ömurleg að undir þinglok, þegar blasir við að takmarkaður tími er og það er fullt af málum sem bíða afgreiðslu, þá geti forustumenn stjórnarmeirihlutans ekki sest niður, geti ekki sagt okkur hvað þeir vilja, geti ekki komið með lista yfir þau mál sem þeir telja æskilegt að við klárum, og minni hlutinn komi líka með lista, og svo reyni menn að vinna úr þessari stöðu. Þetta er eitthvað sem þarf bara að gerast. Af hverju í ósköpunum gerist það aldrei? Forsetar Alþingis í gegnum tíðina hafa alltaf haft ríkt svigrúm til að leggja sínar áherslur í starfinu. Við höfum haft forseta sem hafa stigið inn í svona atburðarás og ákveðið einfaldlega að ekkert yrði fundað fyrr en einhver áætlun kæmi frá meiri hlutanum um hvernig þeir sæju fyrir sér þinglok. Þetta getur (Forseti hringir.) forseti gert. Mér virðist það hafa verið einkennandi á þessu kjörtímabili að forseti Alþingis hefur ekkert beitt sér. (Forseti hringir.) Ég gagnrýni það. Hann á að beita sér miklu meira í þágu (Forseti hringir.) þess að hér verði almennileg þingstörf.