145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Það er gaman að hlusta á reynt fólk sem þekkir málin út og inn. Ég ætla að spyrja hv. þingmann út í fjármögnun vegaframkvæmda. Í raun má segja að hv. þingmaður hafi að hluta til svarað því í ræðu sinni þar sem hann bendir á að mörkuðu tekjurnar hafi í raun ekki fylgt verðlagi og að við göngum mjög skammt í að skattleggja jarðefnaeldsneyti. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni, það er með ólíkindum að við skulum ekki hafa nýtt tækifærið sem hefur myndast með lágu heimsmarkaðsverði á olíu, að leggja ekki hærri álögur á jarðefnaeldsneyti til þess síðan að nýta í vegakerfið. Rétt eins og hv. þingmaður orðaði það hafa þrjú ár eiginlega farið til spillis.

En nú erum við í þessari stöðu og þessi ríkisstjórn verður vonandi ekki áfram við völd. Við erum með samgönguáætlun sem er mjög metnaðarlaus. Ég vil benda fólki á að skoða töflur í nefndaráliti minni hlutans sem sýna framlög til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, í hvaða stöðu við erum. Þetta er alveg með ólíkindum. En hvað getur ný ríkisstjórn gert? Við erum örugglega sammála um að það þarf að spýta í lófana í þessum málaflokki og bæta í. Hvernig förum við að því? Hvar liggja fjármunir til þess? Eins og hv. þingmaður rakti eru gríðarlega mörg verkefni fram undan. Með tilkomu allra þessara ferðamanna og aukinna samgangna á landsbyggðinni — við erum að reyna að vera með byggðastefnu þar sem fólk á að geta búið úti á landi — verðum við að byggja upp vegi, útrýma einbreiðum brúm og sinna vetrarþjónustu og hvað þetta nú allt er.

Við veittum 80 milljarða í skuldaniðurfellingu (Forseti hringir.) sem við hefðum getað veitt að einhverjum hluta í vegaframkvæmdir. Við höfum ekki skattlagt jarðefnaeldsneyti eins og við hefðum átt að gera. Hvert yrði fyrsta verkefnið ef hv. þingmaður yrði ráðherra á morgun og ætti að sjá til þess að fjármagna vegakerfið og bæta um betur?