145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:59]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er auðvitað þannig að í breytingartillögum meiri og minni hluta er margt sem til betri vegar horfir varðandi samgönguáætlunina. Það er samt ekki hægt að komast hjá því að segja það hér í þessum ræðustól og í þessari umræðu að frammistaða stjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum á þessu kjörtímabili er hraksmánarleg. Hún er nú á síðustu dögum að ljúka við það að koma einu samgönguáætluninni í gegn sem hún hefur að líkindum náð að klára á þessu kjörtímabili. Það er auðvelt fyrir stjórnmálamenn að halda því fram að þeir vilji gera margt og séu tilbúnir að skoða ýmislegt en fjármagnið sé af skornum skammti o.s.frv., við þekkjum þau svör. Þegar ég horfi til framkvæmda eins og nefndar hafa verið í þessari umræðu, í andsvörum við hv. þingmann, eins og t.d. Öxi, og ég get líka nefnt Dettifossveg sem er í kjördæmi þingmannsins, þá verður maður að biðja hv. þingmann um að svara þeirri pólitísku gagnrýni sem felst í þeirri fullyrðingu að frammistaða stjórnarflokkanna sé hraksmánarleg, ekki síst í ljósi þess að á þessu kjörtímabili hefur með ítrekuðum hætti og rökstuddum hætti verið sýnt fram á að með pólitískum ákvörðunum væri hægt að ná í meira fjármagn til þess að gera meira. En stjórnarflokkarnir hafa ekki sinnt því, hafa ekki sinnt um það. Hvernig svarar hv. þingmaður slíkri gagnrýni?