145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:25]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Ég hef starfað í umhverfis- og samgöngunefnd á nær öllu þessu kjörtímabili og fagna því mjög að þessi áætlun skuli núna vera fyrir þinginu og á ekki von á öðru en að hún verði samþykkt á næstu dögum. Í nefndinni hefur verið ágætissamvinna og gott vinnulag þar sem við fengum til okkar fjöldann allan af fólki víða að af landinu, frá sveitarfélögum, frá ýmiss konar samtökum um allt land, og gerði það að verkum að nefndarmenn fengu mjög gott yfirlit yfir þá stöðu sem uppi er í samgöngumálum landsins.

Hún er ekkert sérstaklega góð eins og fólk veit vel og við sjáum í fréttum hvað eftir annað að hér verða mjög alvarleg umferðarslys. Það er aukið álag á vegakerfið vegna þess að ferðamönnum hefur fjölgað með slíkum hætti að enginn hefur getað gert ráð fyrir því hvernig því yrði mætt.

Þessir innviðir, vegakerfið og samgöngur hjá okkur, eru nokkuð sem við verðum að hafa í algjörri gjörgæslu á næstu árum því að eftir hrun hafa tekjur ríkisins verið með þeim hætti að ekki hefur verið hægt að bæta í á þeim sviðum sem menn hefðu þó viljað gera til að byggja upp innviði hér. Einnig skiptir miklu máli í hvaða forgangsröð við notum þá peninga sem við höfum milli handanna í formi skattfjár sem almenningur greiðir til þessara mála o.s.frv.

Með þessari áætlun er lagt af stað með mjög sterk áform um að gera betur á næstu árum og gefa í, enda eru samgöngumál ekki einungis öryggismál heldur eru þau líka stórkostlega mikilvæg byggðamál, tengjast atvinnumálum o.s.frv.

Það sem mig langar að gera að umtalsefni í dag og styðjast við nefndarálit meiri hluta samgöngunefndar sem ég á sæti í eða er hluti af eru mál sem mér eru einkar kær í samgöngumálum. Það eru öryggismálin og staða innanlandsflugs á Íslandi. Meiri hlutinn telur ástæðu til að árétta mikilvægi þess að unnið verði að umferðaröryggismálum, sérstaklega í ljósi fjölgunar erlendra ferðamanna á vegum landsins. Sú fjölgun hefur skapað ýmiss konar áskoranir og vandamál sem bregðast þarf við, líkt og slys á ferðamönnum sýna ítrekað. Umferðaröryggisáætlun Samgöngustofu hefur undanfarin ár ekki verið fjármögnuð líkt og stofnunin hefði kosið en samþykkt samgönguáætlunar skiptir þar töluverðu máli. Efla þarf fræðslu og forvarnir fyrir erlenda ferðamenn sem leigja bíla hér á landi. Því miður hefur orðið bakslag á síðustu árum varðandi fjölda alvarlegra umferðarslysa. Á árinu 2015 létust 16 manns í umferðarslysum og 178 manns slösuðust alvarlega. Á undanförnum árum hafa hátt í 200 manns látist eða slasast alvarlega í umferðarslysum á hverju ári og það er gríðarlegt áhyggjuefni. Kostnaður samfélagsins af umferðarslysum er gríðarlegur og í nýju rannsóknarverkefni við Háskólann í Reykjavík er komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi verið ríflega 48 milljarðar kr. árið 2015. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 2012 var reiknað út að beinn kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna umferðarslysa árið 2009 hafi verið um 930 millj. kr. á núverandi verðlagi. Til gríðarlega mikils er því að vinna að fækka umferðarslysum sem auk fjárhagslegra afleiðinga hafa að sjálfsögðu mikla félagslega og sálræna erfiðleika í för með sér svo ekki sé meira sagt.

Meiri hlutinn telur mjög jákvætt að á áætluninni núna eru framkvæmdir við nokkra af umferðarþyngstu vegum landsins því að brýnt er að þeim verði lokið sem fyrst, enda er þar um mikið öryggisatriði að ræða og þar er aðalmálið að aðskilja akstursstefnur. Í þessu sambandi má nefna að framkvæmdir við breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes hefjast 2018 og það verður haldið áfram við tvöföldun Reykjanesbrautar, en í fyrsta áfanga þess verks verða framkvæmdir við mislæg gatnamót við Krýsuvíkurveg sem meiri hluti nefndarinnar lagði til á síðasta þingi að yrði hraðað og tekið hefur verið mið af, hringvegurinn milli Hveragerðis og Selfoss verður breikkaður, en brýn þörf hefur verið á að breikka þann vegarkafla, og þá verður lokið við breikkun á veginum frá Hellisheiðarvirkjun að Hveragerði þannig að akstursstefnur verði aðskildar. Með mikilli fyrirhugaðri uppbyggingu á Miðnesheiði og í tengslum við Keflavíkurflugvöll þarf að huga alveg sérstaklega að nauðsynlegri uppbyggingu á innviðum í nágrenni vallarins og ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar sem allra fyrst en það er leið allra sem þurfa á flugvöllinn að fara. Þetta er orðið eitthvert mikilvægasta svæðið á landinu hvað varðar samgöngur og að þar sé vel gætt að öryggismálum.

Það er rétt að vekja sérstaka athygli á átaki sem varð til á Reykjanesi í kjölfar banaslyss sem þar varð í júlí í sumar og kallast Stopp – hingað og ekki lengra. Fulltrúar þeirra samtaka komu einmitt á fund umhverfis- og samgöngunefndar þar sem þeir báru upp erindi sitt, sem var það að samtök íbúa á svæðinu berjast fyrir umbótum á Reykjanesbrautinni. Langtímamarkmið samtakanna er að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar alla leið að Leifsstöð en áður en að því kemur sé hins vegar nauðsynlegt að ráðast í bráðaaðgerðir og bráðabirgðaaðgerðir sem fela í sér gerð tveggja hringtorga við gatnamótin við Aðalgötu og Flugvallarveg auk endurbóta á Hafnavegi. Með framkvæmdunum yrði öryggi vegfarenda um Reykjanesbraut aukið til muna og hættulegum gatnamótum eytt. Meiri hlutinn tekur undir þessar tillögur samtaka íbúa á svæðinu, Stopp – hingað og ekki lengra, og leggur til að á árinu 2017 verði veittar 200 millj. kr. í gerð hringtorganna og á árinu 2018 verði veittar 100 millj. kr. til endurbóta á Hafnavegi en áður en að þeim framkvæmdum getur orðið þarf að ráðast í nauðsynlega skipulagsvinnu. Framkvæmdir við hringtorgin geta hins vegar hafist mjög fljótt og mikil áhersla lögð á það af hálfu meiri hlutans og samgöngunefndar allrar að það verði gert sem allra fyrst enda er þarna um afskaplega þungan vegarkafla að ræða hvað varðar umferð.

Ég vil þá snúa máli mínu og beina ræðu minni að málefnum innanlandsflugs. Þar er okkur vandi á höndum og innanlandsflug gagnast því miður ekki vegna kostnaðar íbúum og gestum sem sækja þetta land nægilega. Miðað við hvað landið er dreifbýlt og hvað það er stórt er afar mikilvægt að flug innan lands geti verið með myndarlegum hætti og hægt að treysta á það sem samgöngumáta í mun meira mæli en nú er. Á fundum nefndarinnar kom einmitt skýrt fram hversu mikilvægt innanlandsflugið er fyrir Austur-, Norður- og Vesturland. Stærsti hluti stjórnsýslunnar er á höfuðborgarsvæðinu og hingað þarf fólk að leita til að njóta opinberrar þjónustu. Innanlandsflugið er því eini raunhæfi ferðamátinn fyrir mjög stóran fjölda landsmanna til að komast til Reykjavíkur á skikkanlegum tíma og jafnvel að geta þá flogið til baka heim samdægurs, sem að sjálfsögðu er mjög hagkvæmt og gerir það að verkum að mikill tími og peningar sparast í vinnu í heimahögum o.s.frv.

Innanlandsflugið er því samgöngumáti sem nauðsynlegt er að styrkja og einnig er mikilvægt að gera það með það í huga að dreifa ferðamönnum betur um landið, dreifa þannig álaginu sem hlýst af heimsóknum ferðamanna til Íslands og ekki síður er mikilvægt að dreifa þeim tekjum sem skapast af ferðamannaiðnaði á Íslandi, að þær tekjur séu ekki bundnar ítrekað við sömu svæðin sem hefur það svo í för með sér að aðrir staðir sem er ekki síður áhugaverðir eru ekki inni í myndinni vegna þess að þangað er hreinlega ómögulegt að komast með góðu móti.

Það þarf að huga miklu betur að því að tengja saman innanlandsflug og millilandaflug þannig að frá Keflavíkurflugvelli sé hægt að fara með innanlandsflugið beint á þá áfangastaði sem menn vilja, menn þurfi ekki að fara til Reykjavíkur fyrst og síðan þaðan út til mismunandi hluta landsins. Þetta á auðvitað að vera möguleiki strax við komuna í Keflavík og hlýtur að vera verkefni stjórnvalda að tryggja að þetta verði hægt. Meiri hlutinn telur að meta þurfi mismunandi leiðir til að styrkja innanlandsflugið, t.d. að allt innanlandsflug verði boðið út en flugvallargjöld færð að raunkostnaði, hvort gera eigi lengri samninga við Isavia en nú hefur verið gert eða hvort breyta eigi samningnum þannig að í honum verði kveðið á um rekstur og viðhald innanlandsflugvalla en ekki bara rekstur líkt og nú er. Það er akkúrat þarna sem ég held að mjög mikilvægt sé að verði breyting á, að Isavia komi í mun meira mæli að því að ekki aðeins reka flugvelli heldur að sjá um viðhald og uppbyggingu innanlandsflugvalla. Ég sá að hæstv. innanríkisráðherra, samgönguráðherra, tók undir þær hugmyndir í fjölmiðlum í dag að þetta væri nokkuð sem þyrfti að skoða mjög vel, að fela Isavia mun meiri ábyrgð þegar kemur að innanlandsflugvöllunum.

Þá kemur náttúrlega líka upp á borðið hvernig fjármunirnir sem Isavia hefur úr að spila eru nýttir en ég mundi eindregið mæla með því að innanlandsfluginu yrði gefinn mun meiri gaumur en nú er og mundi halda að þar mundi fara saman hagfelld breyting á svo margan hátt að það væri ekki skynsamlegt annað en að skoða þessi mál ofan í kjölinn.

Líkt og ég hef rakið er innanlandsfluginu og flugvöllunum sniðinn of þröngur stakkur í samgönguáætlun. Ekki eru lagðar til neinar fjárfestingar á seinni hluta tímabilsins. Á Keflavíkurflugvelli eru hins vegar áætlanir um að ráðast í miklar fjárfestingar á næstu árum og fjárfestingaráætlun Keflavíkurflugvallar byggist á spám um stöðuga fjölgun flugfarþega. Til þess að gæta allrar sanngirni vil ég segja að mér finnst staðan á Keflavíkurflugvelli vera afskaplega góð. Mér finnst menn standa þar vel að verki við móttöku á erlendum ferðamönnum sem og auðvitað landsmönnum þeim sem þurfa að nýta flugstöðina. Hlutirnir ganga þar hratt og vel fyrir sig og þrátt fyrir þann gríðarlega farþegafjölda sem fer í gegnum flugstöðina virðist sem mönnum hafi tekist að finna leiðir til að anna þeim mikla straumi sem er inn og út úr landinu og ber að þakka það.

Hins vegar þarf að hlúa mun betur að innanlandsfluginu. Sjálf hef ég verið mikill talsmaður þess að sjálfsögðu, eins og fram hefur komið, að Reykjavíkurflugvöllur verði í Reykjavík áfram til framtíðar, a.m.k. þangað til annar góður staður finnst fyrir innanlandsflugvöll eða annar staður sem sambærilegur er.

Það þýðir að ef við ætlum að standa myndarlega að innanlandsflugi verður að ráðast í ýmsar framkvæmdir í tengslum við flugvallarstarfsemina eins og nú er verið að gera þar sem er verið að skerða möguleikana á því að flugvöllurinn geti sinnt hlutverki sínu á sama tíma og honum er ætlað að hafa svo mikilvægu hlutverki að gegna til fjölda ára inn í framtíðina fyrir alla þjóðina, ekki hvað síst þegar kemur að sjúkraflugi.

Þess vegna þarf að standa myndarlega að uppbyggingu á Reykjavíkurflugvelli, það þarf að sjálfsögðu að koma þar ný flugstöð. Það segir sig sjálft að sú flugstöð sem þar er núna er algjörlega barn síns tíma og stenst engan veginn þær kröfur sem við gerum til innviðamála á Íslandi og hvernig við viljum taka á móti fólki sem hér fer um, hvort sem það eru innlendir eða erlendir farþegar.

Ég legg áherslu á það tvennt í þessari ræðu minni, eins og fram hefur komið, að umferðaröryggismálum verði hátt undir höfði gert og að innanlandsflugið fái þann sess sem það á skilið í samgöngumálum okkar Íslendinga á næstu árum.