145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég lít á samgöngukerfið sem grunnkerfi sem eigi að vera í eigu almennings í landinu. Ég sé hins vegar alveg rökin fyrir því að taka einstaka framkvæmdir út fyrir sviga, t.d. þegar um aðra leið er að ræða, og leggja þá veggjald á þá leið sem sett er í einkaframkvæmd eins og gert var með Hvalfjarðargöngin á sínum tíma, þannig að ég er svo sem ekki með absalútt andstöðu við einkaframkvæmd. Ég held að það þurfi hins vegar að vera þung rök fyrir því að fara þá leið.

Mér finnst einkaframkvæmd ekki mega vera afsökun — það var það sem ég var að benda á minni ræðu — fyrir fjársvelti stjórnvalda. Það hefur mér því miður fundist vera andi málflutnings ýmissa hv. þingmanna meiri hlutans, þ.e. að rökstyðja einkaframkvæmd með því að ekki séu til peningar í samgöngumál. Eigi að síður er það svo að við borgum þetta á endanum, almenningur í landinu, hvort sem við gerum það í gegnum veggjöld eða skatta. Mér finnst það fyrst og fremst rök ef ætlunin er að setja einhverja sérstaka framkvæmd í flýti; það er önnur leið í boði og það er gert með þessum tiltekna hætti að hún er tekin út fyrir sviga í heildarkerfinu. En ég, eins og hv. þingmaður, tel að við þurfum að ræða það sérstaklega í hvert sinn.

Hvað varðar gjaldtöku um veginn út á Látrabjarg, þar sem engri annarri leið er til að dreifa, þá þætti mér það einkennilegt. Ég hef hins vegar sagt það, í tengslum við ferðaþjónustuna, gjaldtökuna af ferðaþjónustunni, sem við erum alltaf að ræða, að eðlilegast væri að horfa bara til virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. Það var snúið til baka með það af núverandi ríkisstjórn. Fyrst og fremst eru það hinir sameiginlegu sjóðir sem við eigum að nýta til að tryggja aðgengi. Mér finnst alveg eðlilegt að rukka á bílastæðum því að þar erum við að taka mikilvægt rými undir og byggja ákveðin gæði fyrir þá sem koma með tilteknum hætti, en allt slíkt (Forseti hringir.) eigum við að ræða. Bílastæðin við Látrabjarg eru auðvitað jafn dýrmæt og bílastæðin í 101 Reykjavík.